Erlent

Losun ósoneyðandi efnis eykst þrátt fyrir alþjóðlegt bann

Kjartan Kjartansson skrifar
Lag ósons í heiðhvolfinu ver líf á jörðinni fyrir hættulegum útfjólubláum geislum sólar. Efni sem eyða ósoninu voru bönnuð á 9. áratugnum eftir að skaðleg áhrif þeirra urðu ljós.
Lag ósons í heiðhvolfinu ver líf á jörðinni fyrir hættulegum útfjólubláum geislum sólar. Efni sem eyða ósoninu voru bönnuð á 9. áratugnum eftir að skaðleg áhrif þeirra urðu ljós. Vísir/Getty
Vísbendingar eru um að óþekktir aðilar framleiði nú ósoneyðandi efni á laun í trássi við alþjóðlegt bann. Mælingar vísindamanna benda til þess að losun á ákveðinni tegund klórflúorkolefnis hafi aukist um 25% frá árinu 2012.

Hópur vísindamanna kynnti niðurstöður sínar í gær. Losun á CFC-11, einni tegund klórflúorkolefna sem eyða ósonlagi jarðar, var bönnuð með Montreal-sáttmálanum sem þjóðir heims samþykktu árið 1987.

„Ég hef gert þessar mælingar í meira en þrjátíu ár og þetta er það sem hefur komið mest á óvart af því sem ég hef séð,“ segir Stephen Montzka, vísindamaður við Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna, sem er sleginn yfir niðurstöðunum við Washington Post.

Sjá einnig:Óvænt og óútskýrt bakslag fyrir ósonlagið

Aðildarríki Montreal-sáttmálans hafa gefið upp að framleiðsla á CFC-11 sé svo gott sem engin. Niðurstöðurnar nú benda því til þess að einhver virði bannið að vettugi. Vísindamennirnir treysta sér hins vegar ekki til að fullyrða um hvert gæti verið að verki. Gögnin bendi aðeins til þess að gasið gæti komið frá austurhluta Asíu.

Hægir á bata ósonlagsins

CFC-11 var aðallega notað í froðu en það getur lifað í allt að hálfa öld í lofthjúpi jarðar ef það sleppur þangað. Í millitíðinni stuðlar það að eyðingu ósons í heiðhvolfinu. Ósonlagið ver líf á jörðinni fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar. Það hefur smám saman verið að ná sér í kjölfar Montreal-sáttmálans þó að það muni taka það áratugi að ná aftur fyrri styrk. Vísindamennirnir áætla að aukningin í CFC-11 hafi hægt á bata þess um 22%.

„Það er ekki ljóst hvers vegna nokkurt land ætti að vilja byrja að framleiða og losa óvart CFC-11 þegar hagkvæmir kostir hafa lengi verið aðgengilegir,“ segir Robert Watson, fyrrverandi vísindamaður hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA sem rannsakaði eyðingu ósons á 9. áratugnum.

Talsmaður umhverfisáætlunar Bandaríkjanna sem hefur umsjón með Montreal-sáttmálanum segir að vísindanefnd sáttmálans verði að staðfesta niðurstöður mælinganna og leggja þær fyrir aðildarríkin. Sé einhver að framleiða CFC-11 í öðrum tilgangi en heimilt er samkvæmt sáttmálanum stangist það á við alþjóðalög.

„Ef þessi losun heldur áfram óáreitt getur hún hægt að bata ósonlagsins. Það er þess vegna áríðandi að við metum þessi vísindi, finnum orsök þessarar losunar og grípum til viðeigandi ráðstafana,“ segir talsmaðurinn.


Tengdar fréttir

Óvænt og óútskýrt bakslag fyrir ósonlagið

Skammlíf klórflúorkolefni sem Montreal-sáttmálinn nær ekki yfir og breytingar á hringrás lofts í heiðhvolfinu vegna loftslagsbreytinga hafa verið nefndar sem mögulegar skýringar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×