Erlent

Væntanlegur yfirmaður CIA vildi draga útnefninguna til baka

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Gina Haspel hefur starfað fyrir CIA í 33 ár.
Gina Haspel hefur starfað fyrir CIA í 33 ár. Vísir/EPA
Gina Haspel, sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur útnefnt til embættis forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA bauðst um helgina til þess að stíga til hliðar vegna ótta um að hart yrði sótt að henni í staðfestingaryfirheyrslum bandaríska þingsins.

Haspel hefur starfað áratugum saman hjá CIA og er nú starfandi forstjóri leyniþjónstunnar eftir að Mike Pompeo tók við embætti utanríkisráðherra. 

Staðfestingaryfirheyrslur vegna útnefningarinnar fara fram á miðvikudaginn og hafa þingmenn demókrata gefið út að fortíð hennar ætti að útiloka að hún geti starfað sem forstjóri CIA, ekki síst vegna þátts hennar í pyntingaráætlun CIA í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september

Haspel stýrði leynifangelsi leyniþjónustunnar í Taílandi þar sem fangar voru beittir vatnspyntingum og annarri „yfirheyrslutækni“ sem lýst hefur verið sem pyntingum, að sögn Washington Post.

Washington Post greinir fráþví að Haspel hafi um helgina, ásamst starfsmönnum Hvíta hússins, undirbúið sig undir yfirheyrslur þingsins. Þegar starfsmenn Hvíta hússins vildu fá frekari upplýsingar um þátt Haspel í hinum umdeildu yfirheyrslum er hún sögð hafa boðist til þess að draga sig í hlé, til þess að koma í veg fyrir erfiðar staðfestingaryfirheyrslur bandaríska þingsins.

Eru háttsettir embættismenn Hvíta hússins, þar á meðal Sarah Huckabee Sanders, fjölmiðlafulltrúi, sögð hafa þrýst á Haspel að halda útnefningunni til streitu á hitafundi á skrifstofum hennar í höfuðstöðvum CIA.

Var það ekki fyrr en Donald Trump blandaði sér í málið seint í gærkvöldi að Haspel ákvað að stíga ekki til hliðar, og mun hún því koma fyrir njósnamáladeild öldungardeildaþingsins á miðvikudag þar sem yfirheyrslur vegna staðfestingar á útnefningu hennar sem forstjóri CIA verða haldnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×