Erlent

Karapetjan tekur við af Sargsjan

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Fagnað var á götum úti eftir að Sargsjan sagði af sér í gær.
Fagnað var á götum úti eftir að Sargsjan sagði af sér í gær. Vísir/EPa
Karen Karapetjan, fyrsti varaforsætisráðherra Armeníu, er nú starfandi forsætisráðherra eftir að Sersj Sargsjan sagði af sér í gær. Samkvæmt Reuters er hann náinn bandamaður Sargsjans. Rússneski miðillinn RIA greindi frá.

Sargsjan hrökklaðist í gær frá völdum eftir að tugþúsundir höfðu mótmælt honum á götum úti, dögum saman. Mótmælin beindust einna helst gegn langri valdatíð hans, vinskap við yfirvöld í Rússlandi og linkind gagnvart spillingu. Á annað hundrað mótmælenda voru handteknir, meðal annars Níkol Pasjinjan, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, og tveir þingmenn.

Sjá einnig Forsætisráðherra Armeníu segir af sér í skugga fjöldamótmæla

Eftir að hafa setið á forsetastóli í tíu ár tók Sargsjan við forsætisráðuneytinu fyrir viku. Sat hann því einungis sex daga á forsætisráðherrastóli. Armenar ákváðu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2015 að færa völdin frá forseta til forsætisráðuneytisins. Í aðdraganda þeirrar atkvæðagreiðslu lofaði Sargsjan að verða ekki forsætisráðherra ef af breytingum yrði.

„Þessi hreyfing á götum úti beinist gegn valdatíð minni. Ég mun uppfylla óskir ykkar,“ sagði í tilkynningu frá Sargsjan í gær.  Sagði Sargsjan að Pasjinjan hefði haft rétt fyrir sér. Hægt væri að leysa deiluna í Armeníu á marga vegu en að hann gæti ekki komið að þeirri vinnu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×