Innlent

Ljósmæður höfnuðu samningsdrögum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Samningsdrög sem unnin voru af fulltrúum ljósmæðra og Sjúkratryggingafélags Íslands eru „algjörlega óásættanleg“ að mati ljósmæðra. Þetta er niðurstaða fundar í gærkvöld, þar sem ljósmæður ræddu samningsdrögin sem unnin voru fyrr um daginn.

Í rökstuðningi sínum segja ljósmæður að í drögunum leggi heilbrigðisráðuneytið til skerðingu við þjónustu við sængurkonur „til að unnt sé að hækka laun ljósmæðra og voru skilaboðin sú að ekki yrði sett meira fjármagn í þessa þjónustu,“ eins og það er orðað í tilkynningu.

„Sem málsvarar kvenna og nýfæddra barna þeirra geta ljósmæður ekki sætt sig við að þjónustan sé skert á þennan hátt og ekki sé unnt að tryggja öryggi þeirra á fyrstu sólahringum eftir fæðingu með þessu móti. Heimaþjónusta ljósmæðra er í lykilhlutverki til að tryggja heilsu nýfæddra barna og að koma í veg fyrir innlagnir á fyrstu dögum ævinnar,“ segja ljósmæður.

Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalnum sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að um tuttugu ljósmæður af þeim 150 sem starfa í þeirra röðum hafa sagt upp og taka fyrstu uppsagnirnar gildi hinn 1. júlí. Þar er nú í gildi neyðaráætlun vegna aðgerða ljósmæðra en áður höfðu allar þær 95 heimaþjónustuljósmæður sem skráðar eru í það starf á landinu lagt niður störf.


Tengdar fréttir

Hvetur deiluaðila til sátta enda ótækt að ástandið vari lengi

Viðbúið er að senda þurfi nýbakaðar mæður fyrr heim en áður eftir að sjálfstætt starfandi ljósmæður hættu að sinna heimahjúkrun. Líklegt að rými kvennadeildar Landspítalans fyllist og að grípa verði til forgangsröðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×