Fótbolti

Sala áfengis takmörkuð í Moskvu á HM│„Bjórinn mun fljóta“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stuðningsmenn landsliðsins hafa verið áberandi á leikjum Íslands og settu sterkan og eftirminnilegan svip á EM í Frakklandi.
Stuðningsmenn landsliðsins hafa verið áberandi á leikjum Íslands og settu sterkan og eftirminnilegan svip á EM í Frakklandi. visir/vilhelm
Rússnesk yfirvöld vinna hörðum höndum að því að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramótið sem fer fram þar í landi í sumar. Nýjustu fréttir af viðbúnaði í erlendum fjölmiðlum greina frá því að áfengissala verður bönnuð í Moskvu í kringum leikina.

Barir, veitingastaðir, stórmarkaðir og smábúðir í borginni mega ekki selja áfenga drykki á leikdag eða kvöldið fyrir leikdag, samkvæmt frétt breska blaðsins Independent.

Áfengi verður þó á boðstólnum inni á leikvöngunum og opinberum stuðningsmannasvæðum FIFA þar sem mikið eftirlit verður með neyslu þess.

Haukur Hauksson, eigandi ferðaskrifstofunnar Bjarmalands, segir í samtali við Fréttablaðið, að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af bjórskorti.

„Málið er að í Rússlandi er sala og neysla áfengis og tóbaks er bönnuð í um það bil 500 metra radíus frá skólum, barnaheimilum, íþróttastöðum og sundlaugum,“ segir Haukur.

FIFA hefur fengið undantekningu á því banni og muni bjórinn fljóta innan vallar og á stuðningsmannasvæðum.

Haukur segir bannið aðallega beinast gegn glerflöskum en sala á bjór verði leyfð í verslunum og á veitingastöðum.

Átta leikir í riðlakeppni mótsins fara fram í höfuðborginni, tveir í 16-liða úrslitum, annar undanúrslitaleikurinn og svo úrslitaleikurinn sjálfur.

Ísland mætir Argentínu í fyrsta leik sínum á HM í Moskvu þann 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×