Innlent

„Mestu skiptir að þjónustan hefur nú verið tryggð“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra Fréttablaðið/Eyþór
Samningar tókust í kvöld milli Sjúkratrygginga Íslands og sjálfstæðra ljósmæðra sem sinna heimaþjónustu. Endurskoðaður rammasamningur um þjónustuna hefur verið undirritaður af samningsaðilum og staðfestur af heilbrigðisráðherra, samkvæmt upplýsingum frá vellferðarráðuneytinu.  

Eins og kom fram á Vísi í kvöld tekur samningurinn gildi strax. Ljósmæður sem veitt hafa þjónustu á grundvelli rammasamnings munu hefja störf nú þegar. Fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara og lauk um klukkan átta í kvöld. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikinn létti að búið sé að semja um þessa mikilvægu þjónustu og ná lendingu sem hún telji að allir geti vel við unað.

„Mestu skiptir að þjónustan hefur nú verið tryggð. Af hálfu ríkisins var viðurkennt að leggja þyrfti meira fé inn í samninginn og samningsaðilar urðu ásáttir um ákveðnar breytingar til að styrkja umgjörð þjónustunnar.“

Þrátt fyrir að samningar hafi náðst í kvöld er ekki búist við því að álagið á sængurkvennadeild Landspítalans léttist fyrr en í fyrramálið. Samningurinn var undirritaður í ráðuneytinu núna í kvöld en ekki allir sem dvelja á deildinni tilbúnir að æða strax af stað heim. Sjálfstætt starfandi ljósmæður í heimaþjónustu munu flestar hefja aftur störf nú í kvöld eða á morgun. 

Samningurinn sem skrifað var undir í kvöld gildir til 31. janúar 2019 og heimilt er að framlengja hann tvisvar um eitt ár í senn að undangenginni úttekt á framkvæmd hans.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×