Talið er að öllum börnunum, sem og dýrunum, hafi verið fórnað í einni athöfn á árunum 1400 til 1450. Líklegast er um stærstu barnafórn sem fundist hefur. Áður höfðu líkamsleifar 42 barna sem fórnað var af Astekum fundist í Mexíkó.
Chimuveldið stjórnaði stóru svæði í Suður-Ameríku áður en Inkaveldið lagði það undir sig.
Fornleifafræðingurinn John Verano, sem kom að uppgreftrinum, segir í samtali við National Geographic að hann hafi aldrei átt von á þessum fundi.

Beinagrindur þriggja fullorðinna aðila fundust einnig á svæðinu og virðist þau hafa dáið vegna höfuðhöggs. Talið er að þau hafi komið að athöfninni með einhverjum hætti.
Fjöldagröfin fannst mjög nærri íbúðabyggð við strendur Kyrrahafsins eftir að íbúar létu fornleifafræðinga vita af beinagrindum í sandhólum nærri heimilum þeirra.
Af hverju?
Einn fornleifafræðingur segir alla þá sem hann hefur rætt við um fórnarathöfnina byrja á því að spyrja: Af hverju? Svarið við þeirri spurningu gæti fundist í jarðveginum sem líkin fundust í. Þau voru tiltölulega vel varðveitt í þykku leirlagi sem gefur í skyn að gífurleg rigning hafi verið á svæðinu.
Þá rigningu væri hægt að rekja til veðurfyrirbrigðisins El Niño, sem tengist sjávarhitafrávikum í Kyrrahafinu og hefur áhrif á veðurfar víða um heim.
Fornleifafræðingar á svæðinu rannsaka nú aðra staði þar sem svipaðar fórnarathafnir voru framkvæmdar og segja mögulegt að þessi fundur sé einungis toppurinn á ísjakanum.