Erlent

Stofnandinn kveður fyrirtæki í molum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér sést Charles Lazarus með lukkudýri Toys R Us, gíraffanum Geoffrey.
Hér sést Charles Lazarus með lukkudýri Toys R Us, gíraffanum Geoffrey. Toys r us
Stofnandi leikfangaverslunarkeðjunnar Toys R' Us, sem meðal annars rekur útibú á Íslandi, er látinn. Hann var 94 ára gamall.

Rúm vika er síðan að fyrirtækið lýsti því yfir að það hygðist loka öllum verslunum sínum í Bretlandi og Bandaríkjunum. Það markar lokahnykkinn á 60 ára sögu verslanna á þessum tveimur af stærstu markaðssvæðum Toys R' Us í heiminum.

Charles Lazarus byrjaði að selja leikföng árið 1957 en áhugi hans á dótasölu kviknaði eftir að hann hafði gegnt herþjónustu í seinna stríði.

Í viðtali árið 2008 sagði Lazarus að hugmyndina hafi hann fengið eftir samtöl við vina sína í hernum. Þeir hefðu allir sagt honum það sama: Þeir væru nú á heimleið til þess að eignast fjölskyldur og ala upp börn - sem svo gaf Lazarus hugmyndina um að fara að selja leikföng og vörur handa börnum.

Lazarus hefur mátt glíma við lélegt heilsufar undanfarin ár sem fréttaskýrendur segja nú að sé lýsandi fyrir rekstur leikfangaverslanakeðjunnar. Víðtækar lokanir eru framundan beggja vegna Atlantshafsins og hefur fyrirtækið farið fram á greiðslustöðvun til að bjarga því litla sem bjargað verður. Í tilkynningu frá Toys R' Us í gærkvöldi segir einmitt að „þrátt fyrir margar sorglegar stundir að undanförnu er engin sorglegri en fráfall ástkærs stofnanda okkar.“

Verslunum Toys R' Us á Íslandi verður þó ekki lokað samkvæmt nýjustu tíðindum. Þær eru reknar af dönsku móðurfélagi sem ekki er í sömu kröggum og þau bandarísku og bresku, að sögn aðstandenda.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×