Þrjú hundruð byggingar í París tóku þátt í jarðarstundinni með því að slökkva á ljósum, þar á meðal Eiffelturninn.Vísir/AFP
Eiffelturninn í París og Turnbrúin í London voru á meðal þekktra kennileita margra helstu borga heims þar sem ljós voru slökkt í gærkvöldi í tilefni af jarðarstundinni svonefndu. Tilgangurinn var að vekja athygli á loftslagsbreytingum og mikilvægi samstöðu ríkja heims um að berjast gegn þeim.
Myrkrið varði í klukkustund en jarðarstundin var fyrst haldin árið 2007. Hún er nú haldin hátíðleg í fleiri en 180 löndum um allan heim, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar.
Harsh Vardhan, umhverfisráðherra Indlands, segir að jarðarstundin sé tækifæri til þess að „breyta neyslumenningu og hegðun í átt að sjálfbærni“.
Empire State-byggingin í New York í Bandaríkjunum, Óperuhúsið í Sydney í Ástralíu og Brandenborgarhliðið í Berlín í Þýskalandi voru einnig myrkvuð í tilefni jarðarstundarinnar.
Hringleikahúsið í Róm óupplýst í gærkvöldi.Vísir/AFPÍ Dúbaí tendraði fólk kerti þegar slökkt hafði verið á ljósum.Vísir/AFPÁ Rauða torginu í Moskvu var slagorð jarðarstundarinnar um 60+ haft í hávegum.Vísir/AFP