Fótbolti

Heimir um valið á Kolbeini: Ranieri hrósaði honum í hástert

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson valdi Kolbein Sigþórsson aftur í landsliðið í dag en íslenska landsliðið er á leiðinni til Bandaríkjanna þar sem landsliðið spilar við Mexíkó og Perú.

Heimir sagði á blaðamannafundi í dag að hann og þjálfarar vilji skoða Kolbein betur en framherjinn er nýbyrjaður að spila með varaliði Nantes eftir tæplega tveggja ára fjarveru frá fótboltavellinum.

„Málið er að við höfum ekki séð hann spila. Við vitum hversu mikið hann gerir ef hann er í standi. Okkur langar til að sjá hann á æfingum og meta það hvort við séum að fara að fylgjast með honum í framhaldinu,“ sagði Heimir Hallgrímsson á fundinum í dag.

„Við vildum sjá hvernig hann „fúnkerar“ með hópnum og meta þetta með okkar eigin augum. Hann er í mjög góðu standi. Honum líður vel en þú treystir því ekki alltaf hvað leikmaðurinn segir,“ sagði Heimir.

„Ég átti gott spjall við Ranieri (stjóra Nantes) og hann hrósaði honum í hástert. Hann fékk ekkert nema gott feedback og í samráði við Nantes og þjálfarann þá má hann koma með okkur,“ sagði Heimir en mun hann spila leikina?

„Ef að við treystum honum til að spila þá má hann það en hann er fyrst og fremst að koma til að æfa,“ sagði Heimir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×