Fótbolti

Sjáðu Eið, Maradona og Ronaldo halda upp á það að það eru 100 dagar í HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og  Edwin van der Sar.
Eiður Smári Guðjohnsen og Edwin van der Sar. Vísir/Getty
FIFA fékk gamlar goðsagnir úr boltanum til að halda bolta á lofti í tilefni þess að í dag eru hundrað dagar þar til að heimsmeistarakeppnin hefst í Rússlandi en þar verður Ísland með í fyrsta sinn.

Goðsagnir frá öllum knattspyrnuþjóðunum 32 sem taka þátt í keppninni í ár voru kallaðar til og þær beðnar um að halda boltanum á lofti.

Þarna má sjá marga af bestu knattspyrnumönnum sögunnar eins og Diego Maradona frá Argentínu og Ronaldo frá Brasilíu.

Fulltrúi Íslands er Eiður Smári Guðjohnsen sem mætti með derhúfuna niður á Sæbrautina og hélt boltanum uppi með Esjuna í baksýn.

Eiður Smári Guðjohnsen er einn af þeim yngri í hópnum en þarna voru þó einnig leikmenn sem enn eru að spila eins og sem dæmi Englendingurinn Wayne Rooney.

Það má sjá þetta skemmtilega myndband hér fyrir neðan og takið sérstaklega eftir töktunum frá Maradona í eldhúsinu.





Myndbandið endar á því að Gianni Infantino, forseti FIFA, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, halda boltanum á milli í Kremlín.

Fyrsti leikur heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi verður leikur gestgjafa Rússlands og Sádí Arabíu á Luzhniki-leikvanginum í Moskvu 14. júní næstkomandi.

Fyrsti leikur íslenska landsliðsins verður líka í Mosvku en Ísland mætir Argentínu á Otkritie Arena 16. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×