Innlent

Lenti á öðrum hreyflinum í Goose Bay eftir að bilun kom upp

Gissur Sigurðsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Flugvél frá Icelandair er væntanleg  til Goose Bay á Nýfundnalandi nú í hádeginu, með flugvirkja og varahluti um borð, eftir að vél frá félaginu varð að lenda þar á öðrum hreyflinum í gærkvöldi, vegna vélarbilunar.

Vélin var á leiðinni til Denver frá Keflavík en þegar flugmenn sáu vísbendingar um bilun, var þegar ákveðið að lenda á næsta velli, sem var  Goose Bay. Flugmennirnir drápu á öðrum hreyflinum fyrir lendingu, en Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að ekki hafi orðið hættuástand um borð.

„Nei, þetta gekk í rauninni allt saman í samræmi við áætlanir og vinnufyrirkomulag. Það eru ekki aðstæður til viðgerðar í Goose Bay, hvorki eru þar flugvirkjar eða varahlutir fyrir okkar vélar þannig að farþegum var komið fyrir í gistingu í nótt og ákveðið að senda aðra vél,“ segir Guðjón.

Hann segir ekki vitað hversu alvarleg bilunin er.

„Ég held reyndar að hún sé ekki mjög alvarleg þannig að við gerum ráð fyrir að vélin fljúgi hingað heim von bráðar.“

Farþegarnir sem gistu í Goose Bay fljúga til Denver í dag með vél Icelandair sem kemur með varahlutina. Aðspurður hvort það sé aðstaða á vellinum í Denver til að taka vélina inn í skýli og þess háttar segir Guðjón:

„Þetta er þokkalega stór flugvöllur en hann er fyrst og fremst hernaðarmannvirki og reyndar oft notaður þegar þarf að taka eldsneyti í miklum mótvindi og þess háttar. Aðstæður þarna eru alveg þokkalegar en þetta er ekki stórborg, þetta er smábær.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×