Sport

Enginn vildi styrkja eina stærstu stjörnu Svía fyrir ÓL en það er allt breytt núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hanna Öberg með Karl Gústaf Svíakonungi.
Hanna Öberg með Karl Gústaf Svíakonungi. Vísir/Getty
Hin 22 ára gamla Hanna Öberg er ein af stærstu stjörnum Svía á Ólympíuleikunum í Pyeongchang. Öberg var lítt þekkt fyrir leikana í Suður-Kóreu en vann gullverðlaun í einstaklingskeppni skíðaskotfiminnar og svo silfur í boðgöngu með sænska landsliðinu eftir frábæran endasprett hennar.

Hanna Öberg hafði unnið tvenn gullverðlaun á HM unglinga árið 2016 en þetta eru fyrstu verðlaun hennar á stórmóti fullorðinna. Á HM í fyrra endaði hún í 55. sæti í sömu grein og hún vann í Pyeongchang.





Margt hefur því breyst á stuttum tíma og Hanna Öberg hefur skotist upp á stjörnuhimininn í sænska íþróttaheiminum á síðustu dögum. Hanna var líka ofarlega í öllum hinum einstaklingsgreinunum á ÓL, fimmta í eltigöngu (pursuit) og hópgöngunni (Mass start) en var síðan sjöunda í sprettgöngunni. Hún átti síðan frábæran lokasprett þegar Svíar tryggðu sér silfrið í boðgöngunni.

Það fylgir sögunni að ekkert fyrirtæki vildi styrkja hana fyrir Ólympíuleikana í Suður-Kóreu. Nú mun það breytast og von á því að fyrirtækin keppist um að gera við hana samning.

Faðir hennar Tomas Öberg ræddi breytta stöðu dóttur sinnar í viðtali við Expressen. Hún hefur hingað til þurft að treysta á framlög frá sænska samböndunum til að geta stundað íþróttina sína.





„Nú erum við komin í allt aðra samningastöðu og ég vona að margir vilji styrkja okkur,“ sagði Tomas Öberg, faðir Hönnu.

Blaðamaður Expressen telur að takist Hönnu að halda sér inn á topp tíu þá getur hún átt vona á því að fá inn á milli þriggja og fimm milljóna sænskra króna en það eru 37 til 62 milljónir íslenskra króna.

Vinsældar hennar Hönnu eru orðnar það miklar að nú er meðal annars rætt um það að hún fái götu skírða eftir sér í heimabænum hennar Piteå eins og má sjá hér fyrir ofan. Já það hefur margt breyst í hennar lífi á stuttum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×