Fótbolti

Ekki einu sinni þjálfari eða liðsfélagar Messi vissu að hann ætlaði að gera þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi skoraði sérstakt mark í spænska boltanum um helgina eða mark sem menn í Barcelona höfðu ekki séð í tólf ár.

Markið sem Messi skoraði beint úr aukaspyrnu á móti Girona minnti á markið sem Brasilíumaðurinn Ronaldinho skoraði á móti Werder Bremen árið 2006.





Messi hafði áður lagt upp mark fyrir Luis Suarez og skorað annað sjálfur eftir að Börsungar lentu 1-0 undir í upphafi leiks. Þriðja markið úr aukaspyrnunni fór síðan langt með að ganga frá leiknum.

Annað mark Messi kom úr aukspyrnu sem liðið fékk rétt fyrir utan teig. Í stað þess að reyna að skrúfa boltann undir vegginn eins og menn gera oftast þá nýtti Argentínumaðurinn sér það að veggurinn hoppaði allur upp. Messi skaut því boltanum undir varnarvegginn og í bláhornið. Markvörðurinn átti engan möguleika.

Ernesto Valverde, þjálfari Barcelona, var spurður út í aukaspyrnumarkið eftir leikinn. „Það er erfitt að venjast þessu. Alltaf þegar maður heldur að hann hafi gert allt saman þá kemur hann þér aftur á óvart. Við vorum að bíða eftir að sjá hvernig hann færi að því að koma boltanum yfir vegginn og þá setur hann boltann undir hann,“ sagði Ernesto Valverde.

„Þegar maður sér þá hugsar maður ósjálfsrátt að Leo lætur þetta líta svo einfalt út. Þetta er samt ekki svo einfalt,“ sagði Ernesto Valverde.







Coutinho, nýjasti liðsfélagði Messi var bæði með mark og stoðsendingu í leiknum.  „Leo er magnaður. Hann plataði alla með því að setja aukaspyrnuna sína undir vegginn. Það er ótrúlegt að sjá hversu góður hann er. Ég næ betra sambandi við hann og Suarez með hverjum leik. Messi er mjög mikilvægur fyrir okkur,“ sagði Coutinho.

Það má sjá mörkin úr leiknum sem og aukaspyrnumark Lionel Messi (eftir 30 sekúndur) í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×