Viðskipti innlent

Setja af stað vinnumiðlun fyrir fanga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Félag fanga hefur sett af stað vinnumiðlun fanga á Facebook til að aðstoða fólk við að fá starf að afplánun lokinni. Formaður félags fanga segir fasta vinnu auka líkurnar á að fólk haldi sig á beinu brautinni.

Afstaða, félag fanga, hefur stofnað facebooksíðuna Atvinnumiðlun fanga þar sem fyrirtæki geta auglýst eftir að fá fanga til sín í vinnu og eins geta fangar auglýst eftir starfi á síðunni.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, segir suma fanga eiga við félagslega fælni að stríða eftir afplánunina og eiga erfitt með að koma sér á framfæri.

„Eitt af mikilvægustu og erfiðustu verkefnunum sem bíða fanga, það er áður en þeir losna úr afplánun, er að finna starf. Mörg fyrirtæki setja sakaskrá fyrir sig og önnur ekki. Sum fyrirtæki eru reyndar mjög velviljuð föngum og óska eftir að fá fanga í vinnu til sín. Einhvern veginn virðast þeir samt eiga erfitt með að fá vinnu.“

Mikilvægt að hafa fastar tekjur

Guðmundur Ingi bendir á að til að byggja upp nýtt líf þurfi að hafa fastar tekjur. „Ef þú ert ekki með fastar tekjur eða eitthvað fyrir stafni þá er það yfirleitt leið aftur inn í fangelsi.“

Hann vonar að samfélagið verði betur í stakk búið að taka á móti föngum sem hafa drauma um að lifa án glæpa og hafa ýmislegt að gefa til baka til samfélagsins.

„Við búum yfir miklum fjársjóði í fangelsunum. Það eru menn sem geta gert í raun og veru mjög margt. Þó þeir séu kannski minna í bóklegum fögum eða annað slíkt þá er mjög mikið af hæfileikaríku fólki. Þetta er fólk sem hefur lent í ýmsu og vill byggja sig upp aftur,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×