Erlent

Bassaleikari Kinks látinn eftir fall niður stiga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ferill Rodford spannaði sex áratugi en hann var meðlimur The Kinks í 18 ár.
Ferill Rodford spannaði sex áratugi en hann var meðlimur The Kinks í 18 ár. Vísir/Getty
Jim Rodford, bassaleikari bresku hljómsveitanna The Kinks, Argent og The Zombies, er látinn 76 ára að aldri. Hann lést eftir fall niður stiga.

Ferill Rodford spannaði sex áratugi en hann var meðlimur The Kinks í 18 ár. Þá lék hann einnig með hljómsveitunum Argent og The Zombies en við andlát hans voru aðeins fáeinir dagar síðan hann kom fram með þeirri síðarnefndu í Flórída í Bandaríkjunum.

Rod Argent, stofnandi hljómsveitanna, minntist vinar síns og frænda á Facebook-síðu The Zombies. 

„Jim var ekki aðeins stórkostlegur bassaleikari heldur hefur hann frá byrjun verið bundinn sögu The Zombies órjúfanlegum böndum,“ skrifaði Argent. Þá minntist Dave Davies, einn stofnenda The Kinks, Rodford einnig á Twitter-reikningi sínum.

Í frétt breska dagblaðsins The Guardian segir að Rodford hafi verið í þann mund að gefa út sjálfsævisögu sína þegar hann lést. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Jean Rodford, en þau voru gift í 56 ár og eiga saman börn og barnabörn.

Hér fyrir neðan má sjá flutning The Kinks, með Rodford innanborðs, á titillagi plötunnar Low Budget sem kom út árið 1979.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×