Erlent

Rann út af flugbraut og steyptist niður sjávarhamra

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Minnstu mátti muna að mjög illa færi.
Minnstu mátti muna að mjög illa færi. Vísir/AFP
Mildi þykir að enginn hafi slasast þegar farþegaþota rann út af flugbraut flugvallar í Trabzon í Tyrklandi. Minnstu mátti muna að flugvélin rynni út í sjó niður sjávarhamra. BBC greinir frá.

162 farþegar, auk áhafnar, voru um borð í Boeing 737-800 þotu Pegasus-flugfélagsins. Var flugvélin nýlent á flugvellinum í Trabzon við strönd Svartahafsins á leið frá Ankara, höfuðborg Tyrklands.

Svo virðist sem að flugvélin hafi runnið af flugbrautinni og niður sjávarhamra áður en hún stöðvaðist við sjávarmálið.

Fjölmiðlar í Tyrklandi greina frá því að skelfing hafi gripið um sig um borð í flugvélinni á meðan óhappið gerðist en líkt og fyrr segir slasaðist enginn.

Ekki er vitað um hvað olli slysinu en rannsókn á tildrögum slyssins er hafin. Myndband frá vettvangi má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×