Erlent

Lofa umbótum á sjöunda degi mótmæla

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mótmælin hafa verið langvarandi og einkar harðskeytt.
Mótmælin hafa verið langvarandi og einkar harðskeytt. Nordicphotos/AFP
Tugir þúsunda Túnisa hafa mótmælt undanfarna viku og krafist þess að ríkisstjórn forsetans Beji Caid Essebsi láti af niðurskurðarstefnu sinni. Mótmælin héldu áfram í gær, jafnvel eftir að ríkisstjórnin tilkynnti, eftir tveggja tíma krísufund í forsetahöllinni, um aðgerðir, meðal annars í heilbrigðis- og húsnæðismálum.

Til að mynda lofaði ríkisstjórnin andvirði 7,2 milljarða króna innspýtingu í velferðarkerfið. „Þetta mun hjálpa 250.000 fjölskyldum. Þessar aðgerðir munu gagnast lág- og millistéttarfólki,“ sagði velferðarráðherrann Mohammed Trabelsi eftir fundinn.

Beji Caid Essebsi, forseti Túnis.Nordicphotos/AFP
Essebsi forseti heimsótti hið fátæka Ettdhamon-hverfi Túnisborgar í gær til þess að opna félagsmiðstöð fyrir ungmenni. Í stuttri ræðu sinni lofaði hann að beita sér fyrir því að störf myndu skapast fyrir ungmenni. „Við finnum til með ykkur og fjölskyldunum ykkar. En verið hófsöm, við erum ekki rík þjóð.“

Essebsi hefur rétt fyrir sér varðandi fjárhag ríkisins. Þegar arabíska vorið hófst, fyrir sjö árum, var efnahagsástandið á meðal þess sem almenningur var ósáttur við. Atvinnuleysi var mikið og spilling grasseraði. Nú telja mótmælendur að sömu vandamál hrjái ríkið enn. Hryðjuverkaárásir á ferðamannastaði hafi þar að auki gert ástandið verra þar sem þær hafa dregið úr heimsóknum ferðamanna.

Í desember síðastliðnum sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn túnisku ríkisstjórninni að nauðsynlegt og áríðandi væri að laga halla ríkissjóðs. Sjóðurinn veitti Túnisum þriggja milljarða dala lán fyrir rúmum tveimur árum.

Mótmælaaldan í Túnis reis 7. janúar síðastliðinn eftir að ríkisstjórnin hækkaði skatta. Hefur verið mótmælt á að minnsta kosti tíu svæðum í ríkinu og hefur lögregla handtekið að minnsta kosti 800 mótmælendur en 97 lögreglumenn hafa særst í átökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×