Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í New York ríki

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Að minnsta kosti sautján hafa látið lífið í fimbulkulda og snjóbyl sem herjað hefur á austurströnd Bandaríkjanna í dag. Neyðarástandi var lýst yfir í New York ríki vegna mikillar snjókomu en þar mældist allt að tuttugu stiga frost.

Óveðrið hefur náð alla leið til Flórída þar sem snjóaði á sumum svæðum í dag. Samgöngur eru víða í lamasessi og í New York hefur fólk verið hvatt til þess að reyna ekki að nota einkabíla ef það kemst hjá því. Alls þrjú þúsund og þrjú hundruð flugferðum hefur verið aflýst.

Icelandair tilkynnti í dag að vegna stormviðvörunar á Austurströnd Ameríku yrði þremur flugum aflýst til Boston og New York í dag. WOW air frestaði einnig brottför á þremur flugum til sömu borga.

Samkvæmt frétt New York Times  voru skýli fyrir heimilislausa full og mörg fyrirtæki lokuðu vegna veðurs. Skólahald féll niður í New York, Baltimore, Boston, Philadelphiu, Washington og víðar. Snjómokstursbílar voru áberandi á götum margra borga í dag en búist er við því að veður fari versnandi á næstu dögum með áframhaldandi kulda og snjókomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×