Fréttatablaðið greindi frá því á meðan verkfall flugvirkja stóð yfir að grunur hafi leikið á að verkfallsbrot hafi verið framin og að skoðað yrði hvort gengið hafi verið í störf flugvirkja á meðan á verkfalli stóð. Samgöngustofa hefur þegar kannað alvarleika þeirra ábendinga sem hún hefir móttekið en sú spurning vaknar hvort þær voru alvarlegs eðlis og varði hugsanlega flugöryggi?
„Nei, í fyrsta lagi eru þetta mjög óljósar meldingar sem hafa komið til Samgöngustofu og engar þeirra á neinn hátt tengdar öryggisþáttum sem bregðast þyrfti við. Samgöngustofa fer yfir allar ábendingar sem koma, hvort sem þær eru nafnlausar, varðandi hvaða flugrekanda sem er og eftir atvikum er slíkt bara tekið upp í næstu reglubundinni úttekt á öryggismálum hjá viðkomandi flugrekstaraðila. Þannig að það er ekkert sem komið hefur sem fram sem bendir til þess að eitthvað sé ábótavant við öryggi flugfarþega,“ sagði Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.

„Innri verklagsreglur flugrekandana eru alltaf besta öryggisvörnin og við treystum flugrekendunum íslensku mjög vel. Þeir hafa tekist mjög vel á við aukinn vöxt í sinni starfsemi. Þeirra eftirlitskerfi eru mjög örugg og sterk. Okkar eftirlit er fyrst og fremst að fara yfir það með flugrekendunum hverjir gætu verið áhættuþættirnir í þeirra rekstri og við treystum flugrekendunum mjög vel sem hafa staðið sig vel í öryggismálum. Íslenskir flugfarþegar þurfa ekki að óttast öryggi sitt í öruggasta flugflota sem að við höfum nokkurn tíma geta sýnt fram á hér á Íslandi,“ sagði Þórólfur.
Verkfall flugvirkja Icelandair hófst 17. desember síðastliðinn en lauk tveimur dögum síðar þegar skrifað var undir nýja kjarasamninga. Verkfallið hafði mikil áhrif á flugáætlun Icelandair sem þurfti að fresta tugum flugferða vegna verkfallsins.