Erlent

Átökin stigmagnast í Íran

Þórdís Valsdóttir skrifar
Íranskir nemendur við háskólann í Tehran leita skjóls eftir að lögregla beitti þá táragasi. Íbúar landsins hafa mótmælt þarlendum stjórnvöldum í sjaldæfum mótmælum síðustu þrjá daga.
Íranskir nemendur við háskólann í Tehran leita skjóls eftir að lögregla beitti þá táragasi. Íbúar landsins hafa mótmælt þarlendum stjórnvöldum í sjaldæfum mótmælum síðustu þrjá daga. Vísir/afp
Stjórnvöld í Íran hafa varað borgara sína við því að halda „ólöglegar“ samkomur opinberlega. Íranskir borgarar hafa mótmælt þarlendum stjórnvöldum undanfarna þrjá daga í mörgum borgum landsins. Mótmælin hafa færst í aukana í dag og til harðra átaka hefur komið milli lögreglu og mótmælenda.

Mótmælin hófust á fimmtudaginn þar sem mótmælendur mótmæltu háu verðlagi og erfiðum efnahagslegum aðstæðum í landinu. Mótmælin eru þau fjölmennustu frá árinu 2009. Samkvæmt fréttum BBC hafa tveir mótmælendur orðið fyrir byssuskotum og mótmælendur hafa einnig borið eld að vélhjólum lögreglumanna og kveikt í veggspjöldum með myndum af leiðtogum landsins. Mótmælendur hafa ekki gefið viðvörunum stjórnvalda gaum.

Bandaríkin hafa varað Íran við því að „heimurinn fylgist með“ viðbrögðum þeirra við mótmælunum.

Sjá meira: „Heimurinn fylgist með“

Stuðningsmenn stjórnvalda héldu fjöldafundi um allt land til stuðnings ríkisstjórninni og valdamönnum í landinu.Vísir/AFP
Nú í dag komu þúsundir stuðningsmanna íranskra stjórnvalda saman í árlegum samkomum um allt land. Samkomurnar eru skipulagðar af stjórnvöldum og hafa verið haldnar frá árinu 2009 vegna óaldarinnar sem skók Íran það ár.

Íranska ríkisstjórnvarpið sendi út myndbönd af stuðningsmönnunum þar sem þeir bera áróðursborða með stuðningsyfirlýsingum við Ayatollah Ali Khamenei, æðsta leiðtoga Íran. Fjöldafundir til stuðnings stjórnvöldum voru haldnir í yfir 1.200 borgum og bæjum í Íran um helgina.

Ríkissjónvarpið sýndi engar upptökur af hinum „ólöglegu“ mótmælum sem standa yfir um allt land. 

Segir andstæðinga stjórnvalda standa að baki mótmælunum

Eshaq Jahangiri varaforseti Íran hefur gefið í skyn að andstæðingar íranskra stjórnvalda hafi staðið að baki fyrstu mótmælunum. „Sum atvik í landinu undanfarna daga hafa verið undir því yfirskyni að þau snúist um efnahagslegt ástand, en það virðist sem eitthvað annað liggi að baki. Þeir halda að með því að gera þetta muni það skaða ríkisstjórnina, en þetta mun hafa áhrif á aðra,“ sagði Jahangiri í ríkissjónvarpi Íran. 

Rouhani forseti Íran var endurkjörinn í maí síðastliðnum og hefur ekki staðið við loforð sín um uppbyggingu efnahags landsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×