Fótbolti

Mótherjar Íslands á HM í Rússlandi notuðu ólöglegan leikmann í undankeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abdullahi Shehu átti að taka út leikbann en spilaði lokaleikinn.
Abdullahi Shehu átti að taka út leikbann en spilaði lokaleikinn. Vísir/Getty
Íslenska karlalandsliðið er að fara að mæta liði í úrslitakeppni HM í Rússlandi næsta sumar sem komst upp með að brjóta reglur í undankeppninni.  

Nígeríumenn notuðu ólöglegan leikmann í síðasta leiknum sínum í riðlinum þar sem liðið gerði 1-1 jafntefli við Alsír. FIFA hefur nú tekið á málinu.

Nígería missir stigið og leikurinn er dæmdur 3-0 tapaður. Þessi dómur hefur samt ekki áhrif á þátttöku Nígeríu í úrslitakeppninni því liðið var búið að tryggja sér sæti á HM fyrir lokaleikinn.

Knattspyrnusamband Nígeríu þarf hinsvegar að greiða sex þúsund Bandaríkjadali í sekt eða 633 þúsund í íslenskum krónum.

Abdullahi Shehu spilaði allan leikinn á móti Alsír en hann átti að taka út leikbann í leiknum eftir að hafa fengið gult spjald í tveimur fyrri leikjum í undankeppninni.





Nígería endar því með þrettán stig í riðlinum í stað fjórtán. Sambía varð í öðru sætinu með átta stig og Kamerún fékk sjö stig. Yfirburðir Nígeríumanna voru slíkir að sætið var aldrei í hættu.

Stigin tvö sem Alsírmenn fengu eftir þennan dóm duga ekki einu sinni til að koma liðinu upp úr botnsæti riðilsins. Alsír endar nú með fjögur stig en ekki tvö stig.

Nígería verður annar móherji íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi en fyrst mæta strákarnir okkar Argentínu.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×