Aldís, sem var yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, stefndi íslenska ríkinu vegna þeirrar ákvörðunar Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að færa sig til í starfi í janúar í fyrra.
Tilfærsluna taldi Aldís jafngilda ólögmætri brottvikningu úr starfi. Krafðist hún ógildingar ákvörðuninnar og 126 milljóna króna í skaðabætur, bæði vegna fjárhagslegs tjóns og annars.
Hún sakaði lögreglustjóra jafnframt um einelti á vinnustað. Þannig hefði Sigríður Björk meðal annars lesið upp úr tölvupóstum hennar fyrir framan annað starfsfólk. Lögreglustjóri hafi einnig neitað Aldísi um andmælarétt. Ríkislögmaður fullyrti á móti að lögreglustjóri hafi haft fulla heimild til að breyta starfsskyldum Aldísar tímabundið.
Málið var upphaflega flutt í september en það þurfti að endurflytja í síðasta mánuði vegna þess að dómur hafði ekki verið kveðinn upp innan átta vikna.
Lögmaður Aldísar vildi ekki tjá sig um niðurstöðuna við dómsuppkvaðningu.

Inn í mál Aldísar blandaðist rannsókn á meintri spillingu lögreglufulltrúa fíkniefnadeildarinnar sem var náinn samstarfsmaður hennar. Sá vann skaðabótamál gegn ríkinu vegna þess að hann var leystur frá störfum á meðan rannsóknin stóð yfir. Honum voru dæmdar rúmar tvær milljónir króna í bætur en ríkið áfrýjaði dómnum.
Rannsóknin á honum var síðar felld niður. Héraðsdómur taldi rannsóknina hafa aðeins byggst á órökstuddum ásökunum frá upphafi og að viðbrögð lögreglustjóra við þeim hafi verið óþörf og ólögmæt.
Fíkniefnadeildin hafði verið mikið í kastljósi fjölmiðla á þessum tíma en annar starfsmaður hennar var síðar sakfelldur fyrir spillingu. Vitni sem gáfu framburð í máli Aldísar lýstu því hvernig fíkniefnadeildin hefði logað stafnanna á milli vegna illdeilna á milli ólíkra hópa.
Í máli samfstarfsmanns Aldísar sem voru dæmdar bætur sagði Héraðsdómur að spillingarásakanir á hendur lögreglufulltrúanum hafi að líkindum ætt rætur sínar í persónulegri óvild annarra starfsmanna deildarinnar og „óvarlegum ummælum ölvaðra lögreglumanna á bar“ í návist aðila sem tengdust fíkniefnaheiminum.