Kubica hefur prófað 2014 árgerðina af bíl liðsins tvisvar á síðastliðnum mánuði. Hann er einn þeirra ökumanna sem til greina koma sem staðgengill fyrir Felipe Massa. Massa mun aka sína síðustu keppni í Formúlu 1 þegar tímabilið klárast í Abú Dabí um helgina.
Kubica mun aka 2017 bílnum í dekkjaprófunum fyrir Pirelli eftir Abú Dabí kappaksturinn. Slíkt þykir enn frekar ýta undir að búið sé að semja við Kubica en liðið þverneitar að staðfesta nokkuð um það og segir í yfirlýsingu liðsins að enn sé óákveðið hver muni taka sæti Massa.
„Þrátt fyrir að við séum áfram að tala við Kubica, þá hefur endanleg ákvörðun ekki verið tekin um hver muni taka sæti Massa,“ sagði orðrétt í yfirlýsingunni.

Paul di Resta, núvernadi varaökumaður Williams liðsins og Pascal Wehrlein, ökumaður Sauber liðsins eru þeir tveir sem helst koma til greina auk Kubica.
Di Resta ók í ungverska kappakstrinum í fjarveru Massa og þótti standa sig vel. Hins vegar er Wehrlein talinn mjög efnilegur og eini þeirra sem raunverulega er að aka í Formúlu 1 um þessar mundir. Auk þess er hann á mála hjá Mercedes liðinu og það er því líklegt að samningar verði liprir þar á milli um einhvern afslátt af vélaverðinu í skiptum fyrir ökumannssætið.
Enn annar vinkill á þessar vangaveltur er þó sá að Lance Stroll sem er í hinum Williams bílnum og verður á næsta ári er, líkt og Wehrlein frekar ungur og reynslulítill. Það spilar upp í hendurnar á hinum tveimur sem eru báðir komnir yfir þrítugt, sem í þessum leik gerir menn allt að því gamla.