Erlent

Rebel Wilson tjáir sig um kynferðislega áreitni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rebel Wilson greinir frá því að hún hafi tvisvar sinnum orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu valdamikilla manna í kvikmyndaiðnaðinum.
Rebel Wilson greinir frá því að hún hafi tvisvar sinnum orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu valdamikilla manna í kvikmyndaiðnaðinum. Vísir/getty

Enn ein konan sem starfar innan kvikmyndaiðnaðarins stígur nú fram og tjáir sig um kynferðislega áreitni sem hún varð fyrir af hálfu valdamikils manns. Rebel Wilson er áströlsk leikkona á fertugsaldri sem þekktust er fyrir eftirminnilega frammistöðu í gamanmyndunum Pitch Perfect og Bridesmades. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Rebel segir frá því þegar þekktur maður í valdastöðu innan kvikmyndaiðnaðarins bað hana um að fylgja sér inn í herbergi. Þegar þangað var komið hafi hann þrábeðið hana um að stinga fingrinum í rassinn á honum og hún neitað staðfastlega. Á meðan á þessu stóð hefðu karlkyns vinir reynt að taka atvikið upp á myndband og hlegið. Þegar hún hafi komið sér úr þessum erfiðum aðstæðum hafi hún haft samband við lögfræðinginn sinn og umboðsmann og skrifað formlega kvörtun á yfirmenn kvikmyndaversins en hún fór fram á grein í samningnum sem verndaði hana fyrir umræddum manni.

Jafnvel eftir að hafa ráðist í nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að girða fyrir frekari áreitni hafi henni verið sagt að „vera almennileg“ og styðja við leikarann. Rebel kiknaði ekki undan því álagi sem fylgdi þessum hótunum heldur hafi hún mótmælt harðlega og í staðinn fyrir „vera almennileg“ hafi hún sagt hundruð fólks frá atvikinu með „myndrænum hætti“ til þess að vara fólk við leikaranum.

Þá greinir Rebel jafnframt frá öðru atviki en hún segir að kvikmyndaleikstjóri í Hollywood  – sem sé alræmdur fyrir níðast á konum – hafi áreitt hana en hún hafi komist naumlega undan.

Rebel segir að jafnvel hún sem sé jafnan sterk og sjálfsörugg búi yfir reynslu af áreitni en hún sé afar lánsöm að hafa tekið sjálfsvarnarnámskeið. Rebel segist hafa komist undan báðum atvikum heil á húfi en hún sé meðvituð um að ekki séu allir svo heppnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×