Erlent

Fundu stórt og áður óþekkt holrúm í Keopspíramídanum

Atli Ísleifsson skrifar
Keopspíramídinn var reistur í valdatíð Keops faraós, á árunum 2509 til 2483 fyrir Krist.
Keopspíramídinn var reistur í valdatíð Keops faraós, á árunum 2509 til 2483 fyrir Krist. Vísir/Getty
Enn halda píramídarnir í Gíza áfram að valda fornleifafræðingum og fleirum heilabrotum, en svo virðist sem að stórt og áður óþekkt holrúm hafi fundist í Keopspíramídanum.

Í frétt BBC kemur fram að ekki sé vitað um hlutverk umrædds holrúms eða hvort að einhver verðmæti kunni að finnast í rýminu þar sem aðgengi sé ekki greitt.

Franskir og japanskir fornleifafræðingar greindu frá uppgötvuninni eftir tveggja ára rannsóknir. Beittu þeir svokallaðri mýeindatækni (e. muography) við rannsóknir sínar, en með henni má kanna þéttleika í stærri mannvirkjum úr steini.

Keopspíramídinn var reistur í valdatíð Keops faraós, á árunum 2509 til 2483 fyrir Krist. Keopspíramídinn er 140 metrar á hæð og sá stærsti í Gíza, sem er að finna í útjaðri egypsku höfuðborgarinnar Kaíró.

Telja fornleifafræðingarnir að holrúmið sé um þrjátíu metrar að lengd og nokkrir metrar á hæð. Er það að finna fyrir ofan stóra salinn innan í píramídanum.

Þrjú stærri rými eru í Keopspíramídanum og fjöldi ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×