Erlent

ISIS-liðar réðust á sjónvarpsstöð í Afganistan

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn að brjóta sér leið inn í höfuðstöðvar sjónvarpsstöðvarinnar.
Hermenn að brjóta sér leið inn í höfuðstöðvar sjónvarpsstöðvarinnar. Vísir/AFP
Vígamenn Íslamska ríkisins, dulbúnir sem lögregluþjónar, réðust á höfuðstöðvar Shamshad sjónvarpsstöðvarinnar í Kabúl í Afganistan í dag. Minnst einn er látinn og rúmlega tuttugu á sjúkrahúsi en árásarmennirnir komu sér fyrir í húsinu og skutu á meðlimi öryggissveita landsins.

Starfsmenn stöðvarinnar komust af svæðinu í gegnum aðra byggingu.

Búið er að binda enda á árásina og eru útsendingar sjónvarpsstöðvarinnar hafnar að nýju.

Samkvæmt frétt BBC eru árásir á fjölmiðla og blaðamenn tíðar í Afganistan og þeim hafi fjölgað verulega á þessu ári. Árið 2016 dóu þrettán blaðamenn í Afganistan.

„Þetta er árás á frjálsa fjölmiðlun en þeir geta ekki þaggaði niður í okkur,“ sagði Abid Ehsas, fréttastjóri Shamshad samkvæmt Guardian.

Atlantshafsbandalagið hefur nú samþykkt að fjölga hermönnum í Afganistan til að reyna að brjóta á bak aftur það þrátefli sem ríkir nú í landinu á milli stjórnvalda og Talibana.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði blaðamönnum í dag að hermennirnir ættu ekki að taka þátt í bardögum, heldur yrði verkefni þeirra að þjálfa og aðstoða afganska hermenn. Til stendur að fjölga hermönnum NATO í landinu um þrjú þúsund og verða þeir því alls 16 þúsund eftir breytinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×