Landsmenn voru án efa ansi stoltir af íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu í gærkvöldi þegar strákarnir okkar tryggðu sér farseðilinn á HM í Rússlandi næsta sumar.
Fjölmiðlar um allan heim fóru mikinn í umfjöllun sinni um landsliðið í gærkvöldi og þá var stofnaður þráður á vefsíðunni Reddit þar sem margir lýsa aðdáun sinni á landsliðinu. Afrek þeirra sögulegt; Ísland er langminnsta þjóðin til að keppa á lokamóti HM í knattspyrnu karla.
Sá sem byrjar þráðinn á Reddit hefur einmitt orð á smæð þjóðarinnar. Einn segir að það hafi verið mjög svalt að fylgjast með afreki strákanna og þá segir annar: „Ég meina, þeir eru víkingar.“
Einn annar Reddit-notandi hefur orð á því hvað Heimir Hallgrímsson starfar við meðfram fótboltanum en hann er tannlæknir í Vestmannaeyjum.
„Þjálfarinn þeirra er tannlæknir eða eitthvað.“
Annar segir að það hafi verið gaman að fylgjast með íslenska landsliðinu í Frakklandi. Honum er svarað af Englendingi en liðið vann einmitt England 2-1 í 16 liða-úrslitum mótsins.
„Það var ekki gaman fyrir okkur Englendinga. En án gríns, þeir hafa verið magnaðir undanfarin ár og ég vona að það haldi áfram í Rússlandi.“
Heimurinn heldur ekki vatni yfir strákunum okkar: „Þjálfarinn þeirra er tannlæknir eða eitthvað“
