Körfuboltalandsliðið komst inn á Eurobasket í Helsinki í haust, handboltalandsliðið er komið inn á EM í Króatíu í janúar og fótboltalandsliðið tryggði sér sæti á heimsmeistaramótinu í fyrsta sinn á mánudagskvöldið. Öll liðin voru þarna að tryggja sig inn á sitt annað stórmót í röð.

Það eru hinsvegar engin víxlspor eða fótaskortur hjá strákunum okkar þegar þeir spila í Laugardalnum þessa dagana.
Íslensku landsliðin þrjú hafa nú unnið tólf leiki í röð í Dalnum eða alla leiki síðan að handboltalandsliðið vann þriggja marka sigur á Portúgal í umspili um sæti á HM í Frakklandi í júnímánuði 2016. Frá þeim tíma hefur fótboltalandsliðið unnið fimm leiki, handboltalandsliðið fjóra leiki og körfuboltalandsliðið þrjá leiki.

Eftir þennan undarlega leik í Laugardalshöllinni 27. ágúst 2014 hafa landsliðin þrjú leikið tuttugu leiki í röð í undankeppnum stórmóta án þess að tapa. Liðin hafa unnið 18 af leikjunum 20 eða alla nema tvo jafnteflisleiki fótboltalandsliðsins haustið 2015 þegar sæti á EM í Frakklandi var tryggt.

Það er mikil þörf fyrir betri aðstöðu fyrir landsliðin okkar í Laugardalnum og margir sjá nýja fjölnota íþróttahöll í hillingum. Það er hins vegar ekki hægt að líta framhjá því að lukkan er með landsliðunum þessi misserin bæði á Laugardalsvelli sem og í Laugardalshöllinni.
