Leikstjórinn er Svíinn Tomas Alfredson sem á að baki myndirnar Tinker Tailor Soldier Spy og sænsku hrollvekjuna Let the Right One In.
The Snowman er byggð á samnefndri skáldsögu norska rithöfundarins Jo Nesbø en gagnrýnendur hafa rifið hana í sig eftir frumsýningu hennar í breskum kvikmyndahúsum 13. október síðastliðinn. Á Rotten Tomatoes er hún með einkunn upp á 26 prósent, sem er frekar lágt. Í umsögn á vef Rotten Tomatoes er myndin sögð sóa þessari frábæru sögu sem og hæfileikum frábærra leikara.
Í dómi sem birtist í Fréttablaðinu og á Vísi í dag fær hún eina stjörnu og slaka umsögn. „Einhvern veginn verður útkoman að svellköldum hrossaskít sem er líklegri til að vekja kjánahroll og hlátur í ómældu magni frekar en gæsahúð,“ ritar Tómas Valgeirsson gagnrýnandi.

„Tökutíminn okkar í Noregi var allt of stuttur. Við náðum ekki að taka upp alla söguna og þegar við byrjuðum að klippa myndina uppgötvuðum við að þennan hluta vantaði. Þetta er eins og að raða saman risa púsli, og uppgötva að það vantar nokkur stykki þannig að þú nærð ekki að ljúka við heildarmyndina.“
Hann segir framleiðslu myndarinnar hafa skyndilega verið flýtt.
Alfredson sagðist þó ekki sammála þeim sem gagnrýna landafræði myndarinnar þegar kemur að Noregi.
„Þetta er ekki heimildarmynd um Noreg. Ég var að vinna skáldverk. Mér gæti ekki verið meira skítsama þó eitthvað sé ekki landfræðilega rétt þegar ég vinn svoleiðis verk.“

Myndin átti að marka upphaf þríleiks um Harry Hole, í ætt við Millenium-þríleik Stieg Larsson, og var leikstjórinn Martin Scorsese orðaður við verkefnið til að byrja með. Scorsese tók ekki að sér verkefnið en er skráður einn af framleiðendum myndarinnar.
„The Snowman fer af leið fljótt og örugglega og breytist í martraðar vitleysu sem virðist aldrei ætla að taka enda,“ segir í dómi Telegraph um myndina.
„Fyrirsjáanlegt handrit myndarinnar getur varla talist sem texti. Þegar sálrænn hvati morðingjans kemur fram er eins og handritshöfundarnir hafi byrjað að lesa Freud fyrir byrjendur, en ekki klárað bókina,“ segir í dómi The Hollywood Reporter.
Í dómi IndieWire kemur fram að þegar klukkutími er liðinn af myndinni hafi sést langar leiðir að Micheal Fassbender væri kominn nóg af þessari mynd. „Það er ákveðinn mælikvarði þegar aðalleikaranum virðist leiðast þegar klukkutími er liðinn af mynd sem átti mögulega að vera upphaf þríleiks. Þegar tveir klukkutímar eru liðnir af The Snowman vitum við nákvæmlega af hverju Harry Hole er byrjaður að drekka í strætóbiðskýlum. Og okkur langar að fá okkur drykk með honum.“