Yfirmaður hjá Sameinuðu þjóðunum segir aðgerðir stjórnvalda í Mjanmar gegn Rohingya-múslimum „skólabókardæmi um þjóðernishreinsun.“
Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í dag að „hrottalegar hernaðaraðgerðir“ stjórnvalda í Rakhine-héraði væru í „engu samræmi“ við framgöngu múslimanna, sem til að mynda réðust á 30 lögreglustöðvar í ágúst.
Rúmlega 270 þúsund manns hafa flúið Mjanmar og leitað á náðir stjórnvalda í Bangladess. Fjölmargir eru fastir á landamærunum ríkjanna þar sem fregnir berast af miklum eldsvoðum og aftökum án dóms og laga.
„Ég skora á stjórnvöld að hætta þessum hrottlegu hernaðaraðgerðum, skorast ekki undan ábyrgðinni á því ofbeldi sem hefur átt sér stað og hverfa frá alvarlegri og útbreiddri mismunun gegn Rohingya-fólki,“ sagði Zeid Ra'ad al-Hussein á fundi mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf í dag. „Ástandið virðist vera skólabókardæmi um þjóðernishreinsun.“
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Myanmar, hefur reglulega þurft að vísa ásökunum um kerfisbundna útrýmingu Rohingya-múslima í landinu á bug. „Það er allt of djúpt tekið í árinni að kalla þetta þjóðernishreinsanir,“ sagði hún til að mynda í samtali við BBC í apríl.

