Erlent

Norðurslóðir loga

Kjartan Kjartansson skrifar
Samsett gervihnattamynd sýnir reykjarmökkinn yfir norðanverðu Kanada.
Samsett gervihnattamynd sýnir reykjarmökkinn yfir norðanverðu Kanada. NASA
Þykkur reykur sem liggur yfir stórum hluta norðanverðrar Norður-Ameríku frá eldum sem brenna þar sést á myndum úr geimnum. Á sama tíma halda eldar áfram að brenna á Grænlandi.

Eldar hafa brunnið í barrskógum Bresku Kólumbíu í Kanada í meira en mánuð og í byrjun ágúst blossuðu fleiri upp á Norðvestursvæðum landsins. Gríðarlegan reyk hefur lagt norður yfir Norðvestursvæðin, Júkon og Nunavut í norðanverðu Kanada.

Svo þykkur er reykurinn að hann sést á gervihnattamyndum sem teknar voru um miðjan mánuðinn, að því er segir í grein á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Gríðarlegt magn svifryks fylgir reyknum og hefur það slegið met, að sögn vísindamanna.

„Ef og þegar mökkin leggur yfir byggð svæði gæti dagur breyst í nótt,“ segir Mike Fromm frá Flotarannsóknastöð Bandaríkjanna.

Eldarnir á vestanverðu Grænlandi loga í graslendi en ekki er vitað hvernig þeir kviknuðu.AFP/NOAA
Líklegt að eldar logi á Grænlandi fram í september

Á vestanverðu Grænlandi hafa eldar logað í graslendi í hálfan mánuð. Eldarnir brenna á afskekktu svæði en þeir sáust fyrst á gervihnattamyndum í lok júlí. Síðast þegar myndir náðust af þeim um miðjan ágúst fóru þeir vaxandi.

Eldarnir þar eru sérstaklega óvanalegir enda er langstærsti hluti Grænlands þakinn íshellu. The Guardian segir að eldarnir nú séu aðeins rúmum 60 kílómetrum frá ísnum, um 145 kílómetrum norðaustur af bænum Sisimiut.

Vísindamenn frá Delft-tækniháskólanum í Hollandi segja að sinueldarnir á Grænlandi í sumar séu þeir verstu frá því að skráning á þeim hófst um aldamótin.

Sumarið á Grænlandi hefur verið sérlega þurrt og var hitastig tiltölulega hátt áður en eldarnir kviknuðu. Líklegt er talið að eldarnir muni brenna áfram þar til kólna fer í veðri í september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×