Hamilton minnkaði forskot Vettel í heimsmeistarakeppni ökumanna niður í sjö stig. Spennan er því gríðarleg þegar átta keppnir eru eftir á tímabilinu.
Bilið á milli Hamilton og Vettel varð varla meira en tvær sekúndur alla keppnina og spennan var mikil alla keppnina.
Ræsingin var afar spennandi og í kjölfar hennar gerði Vettel tilraun til að taka fram úr Hamilton en Hamilton varðist mjög vel. Engin breyting var á sætum fyrstu manna í ræsingu.
Hamilton og Vettel sigldu tiltölulega auðan sjó í upphafi keppninnar. Það var greinilegt að meistaraefnin voru í sérflokki.
Max Verstappen missti afl á áttunda hring. Han þurfti að nema staðar á brautinni fyrir framan haf hollenskra stuðningsmanna sem komu til Belgíu til að styðja sinn mann. Hann hefur nú fallið úr leik í sex af 12 keppnum á árinu.

Vettel kom inn á 15. hring og fékk gul mjúk dekk undir. Hann kom út á brautina um það bil fjórum sekúndum á eftir Hamilton en með tveimur hringjum yngri dekk. Það var dýrkeypt hjá Ferrari að bíða með að taka Vettel inn. Raikkonen kom svo inn á 16. hring. Raikkonen fékk svo 10 sekúndna refsingu fyrir að hægja ekki á sér undir gulum flöggum sem veifað var þegar Verstappen nam staðar. Eftir að hafa tekið út refsinguna var Raikkonen kominn í sjöunda sæti úr því fjórða.
Vettel leið greinilega betur í upphafi á mjúku dekkjunum. En bilið á milli þeirra hékk í kringum tæplega tvær sekúndur frá 17. hring og fram yfir miðbik keppninnar þangað til á 30. hring þegar öryggisbíllinn kom út.
Samstuð Force India manna olli því að öryggisbíllinn kom út á 30. hring. Sergio Perez þrengdi að liðsfélaga sínum og braut með því afturvænginn og sprengdi hægra afturdekk á eigin bíl. Perez átti alla sök í máli.
Nánast allir ökumenn skelltu sér inn á þjónustusvæðið. Öryggisbíllinn kom inn undir lok 33. hrings. Þegar 11 hringir voru eftir var Hamilton á mjúkum dekkjum en Vettel á últra-mjúkum sem eiga að vera talsvert hraðari. Þar að auki var hópurinn orðinn ansi þéttur fyrir aftan öryggisbílinn.
Vettel var kominn upp að hlið Hamilton en missti af tækifærinu inn í fimmtu beygju brautarinnar. Á sama tíma tóku Daniel Ricciardo og Raikkonen fram úr Bottas, báðir í einu.
Bilið á milli Hamilton og Vettel rokkaði frá einni og upp í eina og hálfa eftir að jafnvægi komst á kappaksturinn eftir að öryggisbíllinn fór inn. Engin breyting varð á stöðu fremstu manna síðustu hringina en bilið var lítið og spennan mikil.