Erlent

Trump á leið í sautján daga frí

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í golfi.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, í golfi. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fer á morgun í sautján daga frí á sveitaklúbb sinn og golfvöll í New Jersey. Það er svo sem ekkert óeðlilegt þar sem forsetar hafa lengi yfirgefið Washington DC í ágúst og þar sem fara á í endurbætur á Hvíta húsinu.

Trump hefur margsinnis gagnrýnt aðra fyrir frí og golfspilun og sagði fyrir tveimur vikum að enginn ætti að fara frá Washington fyrir en breytingar á sjúkratryggingakerfi Bandaríkjanna væru klárar. Í kosningabaráttunni sagði hann einnig að ef hann yrði kosinn forseti myndi hann ekki hafa tíma til að spila golf.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar verða verkamenn að störfum í Hvíta húsinu til 21. ágúst og þurfa allir starfsmenn Vesturálmu Hvíta hússins að yfirgefa starfsstöðvar sínar á því tímabili.

Auk þess að hafa gagnrýnt aðra fyrir frí, skrifaði Trump í bók sinni „Trump: Think Like A Billionaire“ að fólk ætti ekki að taka frí. Ef fólk hefði ekki gaman af vinnu sinni, væri það í rangri vinnu.

Huffington Post hefur tekið saman fjölda gamalla tísta forsetans þar sem hann meðal annars gagnrýndi Barack Obama, forvera sinn, harðlega fyrir að fara í frí og fyrir að spila golf.

Trump hefur yfirgefið Hvíta húsið minnst þrettán af 28 helgum síðan hann varð forseti. Flestum hefur hann varið á eigin golfvöllum eða sveitaklúbbum í Flórída og New Jersey.

Þrátt fyrir beiðni Trump um að þingmenn færu ekki frá Washington er frí hafið í fulltrúadeild þingsins og öldungadeildarþingmenn fara í frí í lok vikunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×