Erlent

Trump var að grínast þegar hann hvatti til lögregluofbeldis

Kjartan Kjartansson skrifar
Donald Trump var að ræða um ofbeldi glæpagengja og innflytjendur þegar hann virtist hvetja lögreglumenn til að beita grunaða menn harðræði.
Donald Trump var að ræða um ofbeldi glæpagengja og innflytjendur þegar hann virtist hvetja lögreglumenn til að beita grunaða menn harðræði. Vísir/AFP
Blaðafulltrúi Hvíta hússins staðfhæfir að Donald Trump forseti hafi verið að grínast þegar hann hvatti lögreglumenn til að vera harðhentir við grunaða glæpamenn á föstudag.

Nokkur lögregluembætti hafa fordæmt ummæli Trump í ræðu fyrir framan hóp lögreglumanna á Long Island á föstudag og segja þau ekki endurspegla gildi þeirra eða verklagsreglur.

Forsetinn hvatti lögreglumennina til þess að vera ekki of góða við grunaða glæpamenn sem þeir handtaka og að þeir ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur af því að slasa þá.

Vísaði hann meðal annars til þess þegar lögreglumenn halda um höfuð grunaðra manna þegar þeir stinga þeim inn í lögreglubíla til að þeir reki sig ekki í.

„Ég sagði, þið getið tekið höndina í burtu, allt í lagi?“ sagði Trump og uppskar hlátur sumra lögreglumannanna.

Fjarlægðu sig ummælum forsetans

Í kjölfarið neitaði lögreglan í Suffolk-sýslu, þaðan sem lögreglumennirnir komu, að hún myndi samþykkja slíka meðferð á fólki í varðhaldi.

Hvíta húsið hafði ekkert tjáð sig um ummæli Trump þar til Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, var spurð út í þau á blaðamannafundi í dag.

„Ég held að hann hafi verið að segja brandara þarna,“ svaraði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×