Íslenski boltinn

Valsmenn fá tvo daga til viðbótar til að jafna sig eftir Slóveníuferðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Egill Lárusson fagnar marki fyrir Val fyrri leiknum á móti Domzale.
Sigurður Egill Lárusson fagnar marki fyrir Val fyrri leiknum á móti Domzale. Vísir/Andri Marinó
Valsmönnum tókst ekki að komast áfram í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í kvöld en liðið tapaði þá fyrir Domzale út í Slóveníu.

Domzale vann báða leikina, 2-1 á Hlíðarenda og svo 3-2 í kvöld, sem þýðir að slliðið vann samanlagt 5-3. Valsmenn voru 2-1 yfir í leiknum í Slóveníu en fengu þá á sig tvö mörk á tveimur mínútum.

Valsmenn eru nú úr leik bæði í Evrópukeppninni og í bikarkeppninni og geta því farið að einbeita sér að Pepsi-deildinni þar sem þeir eru á toppnum.

Valsliðið er nú á heimleið en þeir fengu smá hjálp frá KSÍ eftir leikinn því mótanefnd Knattspyrnusambands Íslands ákvað að seinka leiks liðsins í Ólafsvík um tvo daga.

Leikur Víkings Ólafsvíkur og Val átti að fara fram á sunnudaginn klukkan 18.00 en fer nú fram á þriðjudaginn 25. júlí klukkan 19:15 á Ólafsvíkurvelli.

Leikurinn í Ólafsvík verður því síðasti leikur 12. umferðar Pepsi-deildarinnar sem hefst með leik FH og ÍA á Kaplakrikavelli klukkan 14.00 á laugardaginn. Hinir fjórir leikir umferðarinnar fara allir fram á sunnudaginn.

Leikur KA og Breiðabliks og leikur Fjölnis og ÍBV hefjast klukkan 17.00, leikur Víkings R. og KR byrjar klukkan 19.15 og leikur Stjörnunnar og Grindavíkur fer síðan af stað klukkan 20.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×