Íslenski boltinn

Óli Stefán ákallar stuðningsmenn Grindvíkinga: Markmiðin liggja í því að gera betur en Grindavík hefur gert áður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óli Stefán og lærisveinar hans ætla sér stóra hluti í seinni umferð Pepsi-deildar karla.
Óli Stefán og lærisveinar hans ætla sér stóra hluti í seinni umferð Pepsi-deildar karla. vísir/anton
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur í Pepsi-deild karla, ákallar stuðningsmenn liðsins á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Grindavíkur í dag.

Grindavík er með 21 stig í 2. sæti Pepsi-deildarinnar og með sigri á Stjörnunni í kvöld jafnar liðið topplið Vals að stigum.

Hingað til hafa Grindvíkingar verið sparir á yfirlýsingar og talað um að aðal markmið liðsins sé að bjarga sér frá falli.

Nú er komið aðeins annað hljóð í strokkinn en á Facebook segir Óli Stefán að Grindvíkingar séu búnir að setja sér ný og háleitari markmið.

„Markmiðin liggja í því að gera betur en Grindavík hefur gert áður. Safna fleiri stigum en við höfum gert áður og skrá okkur í bækur knattspyrnusögu Grindavíkur,“ skrifar Óli Stefán.

Hann var í liði Grindavíkur sem endaði í 3. sæti efstu deildar árin 2000 og 2002. Það er besti árangur Grindavíkur í efstu deild. Árið 2000 fengu Grindvíkingar 30 stig og tveimur árum síðar fékk liðið 29 stig.

Besti árangur Grindvíkinga í 12 liða deild náðist 2008 þegar þeir gulu enduðu í 7. sæti með 31 stig.

Óli Stefán hvetur stuðningsmenn Grindavíkur til að fjölmenna á Samsung-völlinn í Garðabæ í kvöld og styðja við bakið á nýliðunum sem hafa komið svo á óvart í sumar.

Grindavík hefur styrkt sig í félagaskiptaglugganum og fengið þá Simon Smidt og Fransisco Eduardo Cruz Lemaur. Sá síðarnefndi lék með Grindvíkingum í Inkasso-deildinni í fyrra.

Leikur Stjörnunnar og Grindavíkur hefst klukkan 20:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Þá verður hægt að fylgjast með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×