Íslenski boltinn

Gunnar Heiðar: Það eru 30 stig í boði

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Vísir/Vilhelm
Fyrstu viðbrögð Gunnars Heiðar Þorvaldssonar, sóknarmanns ÍBV, eftir 2-1 tap í Grafarvogi í kvöld gegn Fjölnismönnum voru að sjálfsögðu vonbrigði.

„Það er leiðinlegt að tapa á þennan hátt. Mér fannst við vera líklegri þegar við skorum fyrsta markið, að við værum líklegri til að skora þetta seinna mark, en því miður þá finnst mér við fá svolítið aulaleg mörk á okkur og við þurfum að fara að gera eitthvað í því.“

Fjölnismenn skoruðu í upphafi seinni hálfleiks. Eyjamenn jöfnuðu stuttu síðar en varamaðurinn Ingimundur Níels Óskarsson skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

„Við reyndum eins og við gátum en það gekk ekki upp í dag. Það er nóg eftir, en við megum ekki fara að tapa of mörgum leikjum í röð til að dragast of neðarlega, þá fer þetta að detta í hausinn á mönnum og menn fara að missa sjálfstraustið. Það eru 30 stig eftir og við þurfum að fara að ná í stig í næstu leikjum.“

„Ég hef engar áhyggjur af því,“ sagði Gunnar Heiðar aðspurður hvort hann hefði áhyggjur af falli í haust. „Við þekkjum þetta svolítið Vestmanneyingar, en það þýðir bara að hugsa um okkur, ekki hvað hin liðin eru að gera. Þegar við förum að gera það þá held ég við náum góðum úrslitum.“

Gunnar Heiðar skoraði sitt fimmta mark í Pepsi deildinni í sumar í leiknum í kvöld og er í hörku formi. „Ég er í fyrsta skipti kominn í form eftir að ég kom hingað heim fyrst fyrir tveimur árum síðan. Þá var ég ekki búinn að spila í tvo mánuði úti og svo meiðist ég og var off allt síðasta ár.“

„Nú er ég loksins kominn í form og á meðan maður hefur enn þá gaman af þessu og finnst maður vera að hjálpa peyjunum inn á þá vill maður halda áfram. En ef við erum að fara að tapa þá er betra að einhver annar spili held ég,“ sagði Gunnar Heiðar og hlær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×