Erlent

Þýska stúlkan fundin heil á húfi í Írak

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Linda er sögð hafa gengið til liðs við samtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki. Hún fannst heil á húfi í Írak.
Linda er sögð hafa gengið til liðs við samtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki. Hún fannst heil á húfi í Írak. Vísir/AP
Yfirvöld í Þýskalandi staðfestu í dag að þýska stúlkan, sem strauk að heiman árið 2016 til að ganga til liðs við samtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki, er fundin heil á húfi í Írak. Þetta kemur fram á vef CNN.

Stúlkan heitir Linda Wenzel og er sextán ára. Hún á heima í bænum Pulsnitz nærri Dresden í Þýskalandi. Hún er ein af þeim fimm konum sem öryggissveit írakska hersins fann þegar herinn tók yfir gömlu borgina í Mósúl en forsætisráðherra Íraks lýsti yfir sigri á vígamönnum Íslamska ríkisins 10 júní.

Heimabær Lindu, Pulsnitz sem er nærri Dresden í Þýskalandi.Vísir/Getty
Búið er að flytja konurnar til Bagdad þar sem þær verða yfirheyrðar.

Lorenz Haase, frá embætti Ríkissaksóknara í Dresden segir stúlkuna vera heila á húfi hvað líkamlega heilsu varðar, að því er hann kemst næst. Haase segist þó ekkert vita um andlegt ástand hennar.

Óvíst er hvort Wenzel fái að snúa aftur til Þýskalands en hún þarf að svara til saka fyrir írökskum dómstólum. Ef sannað verður að hún sé meðlimur samtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki verður málinu vísað til Ríkissaksóknara í Þýskalandi.

Foreldrar Lindu komust að því að dóttir þeirra væri horfin fyrir heilu ári síðan. Linda sjálf segist ekki þrá neitt frekar en að komast í burtu frá stríði, vopnum og hávaða.

Linda fannst þegar írakski herinn tók yfir gömlu borgina í Mósúl.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×