Bakþankar

Gömul próf

Pálmar Ragnarsson skrifar
Háskólakerfið á Íslandi á við eilítið vandamál að stríða. Í of mörgum námskeiðum eru sömu prófin lögð fyrir nemendur ár eftir ár. Þeir nemendur sem verða sér úti um eldri prófin frá samnemendum eða prófbúðum eru því mun betur staddir en þeir nemendur sem gera það ekki og kjósa að læra allt námsefnið.

Til að komast í gegnum ákveðin fög er það nefnilega talin góð og gild aðferð að læra bara svörin við prófinu frá því í fyrra í stað þess að læra allt efnið sem er til kennslu. Jafnvel bara frekar skynsamlegt þegar það er gefið að þú munir ljúka námskeiðinu með hærri einkunn og mun minni fyrirhöfn.

Það slæma er þó að úr þessu námskeiði útskrifast nemandi með litla þekkingu á námsefninu. Öllu verra er að þetta mismunar nemendum. Nemandi með litla þekkingu á efninu og gamalt próf fær líklega hærri einkunn en nemandi með mikla þekkingu á efninu en ekkert próf. Þeir nemendur sem þekkja fleiri eru síðan líklegri til að fá gömlu prófin send sem dreifast hratt á milli samnemenda.

Mér þykir frábært að nemendur geti fengið að sjá eldri próf frá kennurum til viðmiðunar og geti þannig undirbúið sig fyrir álíka spurningar. En þegar nákvæmlega sömu spurningar með nákvæmlega sömu svörum koma ár eftir ár en aðeins hluti nemenda hefur þau undir höndum er kerfið ekki í lagi.

Þó er mikilvægt að taka það fram að í fullt af námskeiðum er þetta ekki svona og fjölmargir harðduglegir nemendur fara í gegnum námið sitt með því að tileinka sér allt námsefnið. En þannig ætti það að vera í öllum námskeiðum, alltaf.

Í hvert sinn sem ég heyri "topp 250 í heiminum" hugsa ég um gömlu prófin og glotti út í annað. Ég hvet stjórnendur Háskóla Íslands og annarra háskóla til að skoða málið og taka á þessu.






×