Íslenski boltinn

Teigurinn: Willum má vera hræddur um starfið sitt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tómas Þór Þórðarson, íþróttafréttamaður á 365, var gestur Teigsins á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi ásamt Arnari Grétarssyni.

Meðal þess sem var til umræðu var slakt gengi KR í byrjun tímabils og staða þjálfarans, Willums Þórs Þórssonar.

Willum tók við KR á miðju tímabili í fyrra og undir hans stjórn náði Vesturbæjarliðið Evrópusæti eftir frábæran endasprett.

Í ár er annað uppi á teningnum en KR situr í 10. sæti Pepsi-deildar karla með sjö stig eftir jafn marga leiki.

„Willum Þór Þórsson er ekki í KR til að hjálpa liðinu. Hann var í KR í fyrra til að hjálpa liðinu og gerði það svo um munaði. Og hann á væntanlega lengri líflínu, bæði fyrir það og Íslandsmeistaratitlana sem hann hefur skilað, heldur en Bjarni Guðjónsson,“ sagði Tómas en Bjarni var rekinn frá KR eftir níu umferðir í fyrra.

„KR er úrslit og árangur strax og 26 Íslandsmeistaratitlar gefa rétta mynd af því og svo er þetta sigursælasta liðið í bikarnum líka.“

Tómas segir að það skipti engu máli hver er að þjálfa KR; enginn er öruggur með starfið sitt ef úrslit nást ekki.

„Það skiptir engu máli hvað þeir heita; Willum Þór Þórsson, Logi Ólafsson, Teitur Þórðarson. Allir hafa þeir verið sendir burt með pokann yfir öxlina fyrir að ná ekki árangri. Og það er ástæðan fyrir því að KR vinnur fleiri titla en aðrir,“ sagði Tómas.

„Willum Þór Þórsson getur ekki sagt að hann sé að hjálpa liðinu núna. Það var í fyrra. Núna er heilt undirbúningstímabil búið og hann er bara þjálfari KR sem er ekki að ná úrslitum, með verri árangur heldur en Bjarni í fyrra. Hann hefur tapað tveimur leikjum í röð og er að fara í Blikana næst og hann má vera hræddur um starfið sitt.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×