Þetta staðfesti lögregla rétt fyrir klukkan þrjú í nótt að íslenskum tíma. Telur lögregla að ekki hafi verið fleiri árásarmenn að verki.
Ljóst er að hvítum sendiferðabíl var ekið á miklum hraða eftir London Bridge í miðbæ London upp á gangstétt á brúnni. Blaðamaður BBC sem varð vitni að atvikinu segir að bílnum hafi verið ekið á minnst fimm gangandi vegfarendur.
Lögregla brást fljótt við og voru fyrstu sjúkrabílar mættir á svæðið aðeins örfáum mínútum eftir að útkallið barst.
Skömmu síðar brást lögregla við útkalli vegna hnífstunguárásar í Borough Market, í grennd við brúnna þar sem fjölmargir barir og veitingastaðir eru staðsettir.

Fjölmörg vitni segja jafnframt að árásarmennirnir hafi verið um borð í sendiferðabílnum sem ekið var á gangandi vegfarendur. Þeir hafi síðan stigið út um afturhlið bílsins og hafið árásina. Þetta hefur nú verið staðfest af lögreglu sem segir að hinir meintu árásarmenn hafi verið skotnir til bana aðeins átta mínútum eftir að útkall barst.
Skömmu eftir miðnætti að staðartíma lýsti lögregla því yfir að hryðjuverk hafi verið framið. Lögregla leitaði þriggja aðila í tengslum við árásina en þegar þetta er skrifað hefur ekkert verið gefið út um handtökur.
Fljótlega eftir að lögregla mætti á vettvangi staðfesti hún að fleiri en einn hafi látist í árásinni. Minnst 20 voru fluttir á sjúkrahús, en líklegt er að fleiri séu slasaðir.
At 0025hrs 4/6/17 the incidents at #LondonBridge & #BoroughMarket were declared as terrorist incidents.
— Metropolitan Police (@metpoliceuk) June 3, 2017
Fimm létust og 49 slösuðust í árásinni sem flokkuð hefur verið sem hryðjuverkaárás.
Þá létust 23 og 116 slösuðust þegar Salman Abedi sprengdi sjálfan sig í loft upp í Manchester Arena tónleikahöllinni í Manchester þann 22. maí síðastliðinn skömmu eftir tónleika Ariönu Grande.
Kjarni málsins
- Rétt eftir klukkan tíu að staðartíma í gækvöldi var sendiferðabíl ekið á gangandi vegfarendur á London Bridge í Lundúnum. Blaðamaður BBC sem varð vitni að atvikinu segir að bílnum hafi verið ekið af karlmanni og á miklum hraða upp á gangstétt.
- Stuttu seinna brást lögregla við útkalli í Borough Market, í grennd við London Bridge, vegna stunguárása.
- Mennirnir sem frömdu árásina við Borough Market voru um borð í bílnum sem ekið var á gangandi vegfaraendur á London Bridge.
- Lögregla fór einnig í útkall í Vauxhall, hverfi í suðvestur Lundúnum. Það reyndist ótengt árásunum á brúnni og í Borough Market.
- Lögregla hefur staðfest að minnst sex létust í árásinni
- Þrír meintir árásarmenn voru skotnir til bana af lögreglu.
- Lögregla hefur staðfest að atvikin eru rannsökuð sem hryðjuverk.
Þá má einnig sjá hér að neðan uppfærslur af tíðindum kvöldsins. Þeim hefur nú verið hætt í bili en bent er á ofangreindar fréttir breskra vefmiðla.