Skoðun

Að pissa í skóinn sinn

Logi Einarsson skrifar
Pólitískir loftfimleikar snúast iðulega um undanbrögð, eftiráskýringar og kúvendingu í stefnumálum. Ríkisstjórnin iðkar þá íþrótt nú af miklum móð.

Síðasta haust voru framhaldsskólarnir plataðir til að sættast á styttingu úr fjórum árum í þrjú undir því yfirskini að það ætti að styrkja fjárhagsgrunn þeirra. Fyrrverandi menntamálaráðherra sór að við þetta yrði staðið en nýr ráðherra hefur nokkrum mánuðum síðar gengið hraustlega á bak orða forvera síns.

Í fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar sagði um styttingu framhaldsskólans: „Áætlunin gerir ráð fyrir að allur sá sparnaður sem muni falla vegna styttingarinnar muni haldast innan kerfisins og fari í að efla framhaldsskólastigið enn frekar.“

Í nýrri fjármálaáætlun sem bíður samþykktar þingsins er öllu snúið á haus: „Eins og í fyrri fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að umtalsverður sparnaður komi fram í framhaldsskólakerfinu vegna styttingar námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú og sá sparnaður endurspeglast í lægri framlögum til málefnasviðsins.“

Sem sagt, á nokkrum mánuðum hafa fyrirheitin verið svikin.

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar (bls. 265) er sérstaklega tekið fram að langvarandi aðhald í fjárheimildum framhaldsskóla hafi sett mark sitt á starfsemi og rekstrarstöðu þeirra. Undirfjármögnun hafi bitnað á gæðum kennslu og námsframboði. Hvorki hafi verið unnt að veita viðunandi stoðþjónustu né endurnýja búnað og kennslutæki. Eftir slíka klausu mætti gera ráð fyrir að í kjölfarið fylgdu upplýsingar um stórauknar fjárheimildir sem gerðu skólunum kleift að bæta stöðuna svo um munaði, en svo er ekki, þvert á móti. Áætlað er að yfir 600 milljónir hverfi út úr framhaldsskólakerfinu til ársins 2022, á gildistíma fjármálaáætlunarinnar. Nær væri að spýta hraustlega í, að minnsta kosti standa við gefin loforð.

Það þarf að búa íslenskt samfélag undir stórkostlegar breytingar í atvinnuháttum, samfara tæknibyltingu sjálfvæðingar, tölvu og gervigreindar, sem er framundan. Þar mun aukin og bætt menntun landsmanna leika algjört lykilhlutverk.

Pistillinn birtist fyrst í Fréttablaðinu




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×