Innlent

Sakfelldur fyrir að hóta að „kaghýða“ lögreglumann og móður hans

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Sævar Óli Helgason
Sævar Óli Helgason
Sævar Óli Helgason, fyrrverandi nefndarmaður Pírata í Reykjavík, var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa hótað að berja lögreglumann og móður hans í júlí árið 2014. Sævar Óli hefur áður hlotið fangelsisdóma fyrir ofbeldisbrot. Annars vegar fyrir að rassskella leikskólakennara og hins vegar bregða fæti fyrir Ólaf Helga Kjartansson, þáverandi sýslumann á Selfossi.

Þetta er í annað sinn sem Héraðsdómur Reykjavíkur kemst að þessari niðurstöðu í máli Sævars Óla. Hæstiréttur ómerkti dóm héraðsdóms Reykjavíkur yfir Sævari frá nóvember 2015 í mars síðastliðnum. Héraðsdómur hafði áður dæmt Sævar í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni.

Fyrir dómi neitaði Sævar Óli sök og krafðist sýknu. Fór hann fram á að vera dæmdur til samfélagsþjónustu og til þrautavara krafðist hann vægustu refsingar og að sakarkostnaður yrði greiddur úr ríkissjóði.

Í dóminum, sem Vísir hefur undir höndum, segir að þann 23. júlí árið 2014 hafi lögregla verið kvödd að hóteli við Laugaveg. Hafi Sævar Óli verið þar „verulega ölvaður“ og neitað að fara út. Hann hafi farið út eftir beiðni lögreglunnar en neitað að fara frá hótelinu þegar út var komið. Í skýrslu lögreglu segir að ákærði hafi ítrekað gengið ógnandi að lögreglumanninum sem nefndur er í ákærunni. Þá segir að Sævar hafi hringt í neyðarlínuna og sagt að maður væri að beita hann ofbeldi á Laugaveginum.

Var hann í kjölfarið handtekinn fyrir ölvun á almannafæri og fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglunnar. Í fangamóttöku á lögreglustöð hótaði hann að berja lögreglumanninn og móður hans.

Bauðst til að draga hótanir sínar til baka

Fyrir dómi sagðist Sævar Óli hafa hótað lögreglumanninum eftir að hann hótaði sér. Hann játaði einnig að hafa hótað móður lögreglumannsins. Hann segist hafa verið vakinn upp á hóteli og þegar hann var kominn út hefði lögreglumaðurinn komið á eftir sér.

„Þá kvaðst ákærði hafa hringt í 112 og beðið um aðstoð lögreglu. Í framhaldinu kvaðst hann hafa verið handtekinn. Þá kvaðst hann hafa hótað lögreglumanninum að kaghýða hann og móður hans. Þessa hótun kvaðst hann hafa endurtekið í fangamóttökunni,“ segir í dóminum.

Við yfirheyrslu daginn eftir kvaðst Sævar hafa verið verulega ölvaður og bauðst til að draga hótanir sínar til baka ef lögreglumaðurinn drægi sínar hótanir til baka. Hann kvaðst ekkert meint með hótununum heldur hafi hann verið að hefna sín og gjalda líku líkt.



Viðurkenndi hótanirnar í opnu bréfi

Málið var þingfest þann 29. maí árið 2015 en Sævar Óli viðurkenndi hótanir sínar í garði þeirra í opnu bréfi sem hann ritaði móður lögreglumannsins þann 6. júní árið 2015. Þar sagðist hann standa fastur á því að lögreglumaðurinn sé einn þeirra sem „umturnast við það að fara í lögreglubúning“ og sonur hennar eigi ekki heima innan lögreglunnar.

Hann stendur þó fastur á því að lögreglumaðurinn hafi farið langt yfir strikið, svo langt að Sævar sjálfur hafi þurft að efna til borgaralegrar handtöku lögreglumannsins. Í bréfinu til móðurinnar, þar sem Sævar lýsir atburðarásinni frá eigin bæjardyrum, segist hann hafa hringt í neyðarlínuna til að óska eftir aðstoð við handtökuna. Honum hafi verið misboðið

„Þess vegna hótaði ég honum á móti með því að segjast myndi kaghýða þig, honum ásjáandi, fyrir að ala upp svona vitleysing einsog hann væri... Áður en ég myndi svo snúa mér að honum og traðka á andlitinu hans, innanfrá...Ég veit…!“

Lögreglumaðurinn hafi í kjölfarið snúið sig niður, þrátt fyrir mótmæli kollega síns á vakt. Fullyrðir Sævar að þessi samskipti hljóti öll að vera til á upptöku auk símtals hans við neyðarlínuna sem hann telur hjálpa hans málstað. Ekkert er minnst á þessi samskipti í dómi héraðsdóms.

Ósáttur við niðurstöðuna

Sævar Óli hlaut sex mánaða dóm fyrir hvort fyrrnefndra ofbeldisbrota sem áttu sér stað árin 2005 og 2006. Þá hlaut hann 30 daga skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir endurtekin húsbrot við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu árið 2012.

Gísli Tryggvason, verjandi Sævars Óla telur að ekki hafi verið viki nægilega að vörnum Sævars í dómi héraðsdóms.

„Hann er ósáttur við niðurstöðuna, sakfellinguna. Þá sérstaklega í ljósi þess að dómarinn fjallaði eiginlega ekkert um varnir okkar í dómnum. Þá tel ég að það eigi að víkja að vörnum manna og svara þeim með rökstuddum hætti en það er lítið sem ekkert vikið að vörnum hans,“ segir Gísli í samtali við Vísi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×