Innlent

Stjórnandi í kristilegu unglingastarfi ákærður fyrir kynferðisbrot

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Karlmaður sem var stjórnandi í kristilegu unglingastarfi hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku sem sótti starfið.
Karlmaður sem var stjórnandi í kristilegu unglingastarfi hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku sem sótti starfið. Vísir/GVA
Karlmaður sem var stjórnandi í kristilegu unglingastarfi hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn stúlku sem sótti starfið. Brotin voru framin árin 2015 og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. RÚV greinir frá.

Í ákæru i málinu, sem gefin var út í lok síðasta mánaðar, segir að maðurinn hafi brotið gegn trúnaðarskyldu sinni við stúlkuna sem honum hafði verið trúað til uppeldis og kennslu. Manninum er gefið að sök að hafa átt samræði við stúlkuna allt að tuttugu sinnum þegar hún var 16 og 17 ára. Hann er sagður hafa notfært sér yfirburðastöðu sína sem hann hafði gagnvart stúlkunni vegna aldurs og reynslu.

Stúlkan, sem hafði sótt unglingastarfið, hafði trúað manninum fyrir erfiðleikum í einkalífi sínu. Maðurinn er sagður hafa tekið stúlkuna undir sinn verndarvæng og aðstoðað hana á ýmsan hátt, bæði á meðan á starfinu stóð og eftir að því lauk. Þá er hann sagður hafa gefið henni lykil að heimili sínu svo hún gæti leitað þar skjóls vegna erfiðra fjölskylduaðstæðna.

Stúlkan krefur manninn um 2,5 milljónir í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×