Síðastliðið vor fékk Umboðsmaður Alþingis ábendingu sem þótti svo traust að sett var af stað rannsókn á kaupunum. Eins manns nefnd Kjartans Björgvinssonar var skipuð í þeim tilgangi að varpa ljósi á hvernig raunverulega var staðið að sölunni. Fjölmennari nefnd hefði getað dregið víðtækari ályktanir um mögulegt glæpsamlegt athæfi en ef lög voru brotin varðandi kaupin, þá eru þau fyrnd í dag.

Gögnin sem nefndin vann eftir lágu öll fyrir hjá opinberum aðilum á borð við embætti sérstaks saksóknara, Fjármálaeftirlitið, Ríkisendurskoðun, slitastjórn Kaupþings og á fleiri stöðum. Í þessu máli er ekki hægt að tala um einhverja einstaka uppljóstrara, ef frá er talinn einn afar mikilvægur heimildamaður.

Finnur tekur undir þetta. „Þetta voru ansi markverðar upplýsingar að fá því fyrir utan þessa tvo menn sem tengdust þessu innan bankans, það er Peter Gatti sem var einhvers konar framkvæmdastjóri og andlit út á við, og svo Martin Zeil sem vann að baksamningnum, er hann eina nafnið sem skrifaði undir þetta umboð.“
Í gær sendi Ólafur Ólafsson frá sér yfirlýsingu þar sem hann hafnar niðurstöðu nefndarinnar.
„Gögnin sem skýrslan byggir á eru samtímagögn. Gögnin eru ítarleg og greina frá allri atburðarásinni og hvernig var staðið að þessum blekkingum með ítarlegum hætti,“ segir Kjartan.
Hann tekur fram að nefndin hafi sýnt mikla varfærni í framsetningu þeirra sönnunargagna sem lágu fyrir. Aðeins þeir starfsmenn Kaupþings sem tóku með beinum hætti þátt í verknaðinum eru nafngreindir, en ekki þeir sem nefndin gat aðeins staðfest að hefðu fengið senda til sín tölvupósta um viðskiptin án þess að svara þeim eða skrifa sjálfir undir einhverja gjörninga. „Þetta er rakið á grundvelli gagnanna. Gögnin tala. Ég held að almenningur viti að auðvitað gerist það oft þegar umræða er óþægileg fyrir einhverja aðila að það koma einhverjir og reyna að afvegaleiða umræðuna. En þá verður fólk bara að standa vaktina og láta ekki afvegaleiða sig.“
Óþekktar slóðir aflandsfélaga
Vinna rannsóknarnefndarinnar fór með þá félaga, Kjartan og Finn, á áður óþekktar slóðir. The International Trust Company of Niue, félag sem átti bæði K.V. Associates S.A sem Kaupþing lánaði í gegnum og Allan Corporation sem Kaupthing Bank Luxemobourg lánaði í gegnum, er staðsett á eyjunni Niue.
Nefndarmenn höfðu ekki heyrt af eyjunni fyrr en til rannsóknarinnar kom en hún er staðsett í suður kyrrahafi og virðist heyra undir Nýja Sjáland. Eyjan er aðeins minni en Reykjavík að flatarmáli og íbúar hennar eru ríflega 1600 talsins.
Af myndum af eyjunni að dæma er hún ekki aðeins paradís á jörðu fyrir peninga heldur líka ævintýragjarna ferðalanga.
Hver á Dekhill Advisors Ltd.?
Þann 18. janúar 2005 greiddi Hauck & Aufhäuser 46,5 milljónir Bandaríkjadollara, sem samsvarar 2,9 milljörðum íslenskra króna, inn á reikning aflandsfélagsins Dekhill Advisors. Bankareikningurinn er í útibúi svissneska bankans Julius Bär & Co í Zürich.
Greiðslan samsvaraði nærri helmingi þess hagnaðar sem félagið Welling & Partner hafði hlotið eftir söluna á bankanum. Félagið Dekhill Advisors Ltd. kemur hvergi annars staðar fyrir í þeim gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hafði. Nefndin hafði einungis formlegt skráningarvottorð félagsins, sem stofnað var á Bresku Jómfrúaeyjum 25. júlí 2005.
Rannsóknarnefndin veit hvorki hver eða hverjir standa að baki félaginu og ekki hvað varð um fjármunina. Nefndin dregur þó þær ályktanir miðað við önnur gögn að það hljóti að vera Kaupþing sjálft eða aðilar tengdir Kaupþingi. Restin af bankareikningi Welling & Partners, samtals 58 milljónir dala, var greidd inn á félag Ólafs Ólafssonar, Marine Choice Limited. Þegar því var lokið var reikningum Welling & Partners lokað.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu