Rannsóknarnefnd Alþingis hefur sannreynt að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser var aldrei í reynd fjárfestir í Búnaðarbankanum þegar 45,8 prósent hlutur ríkisins í honum var seldur í janúar 2003, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi.
Sjá einnig: Finnur Ingólfsson kannast ekki við að þýski bankinn hafi verið leppur
Það er afdráttarlaus niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar. Skýrslan var afhent forseta Alþingis klukkan 10 í dag.
„Það er mér algjörlega ókunnugt um og veit ekki til að það hafi verið,“ sagði Finnur enn fremur við Fréttablaðið í maí í fyrra þegar fjallað var um málið.

Finnur, sem er fyrrverandi seðlabankastjóri og ráðherra, var forstjóri VÍS þegar félagið keypti hlut í Búnaðarbankanum en hann sagði við Fréttablaðið að hann þekkti engan sem teldi þýska bankann hafa verið lepp.
Vitnaði hann í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2006 þar sem sagt var frá staðfestingu sem stofnunin hafði fengið frá þýska bankanum um að hann hafi átt hlut í Eglu sem keypti í Búnaðarbankanum og frá KPMG í Þýskalandi um að hlutinn hafi verið færður í bækur Hauck og Aufhäsuer í samræmi við þýsk lög og reglur.
„Þær staðreyndir liggja þarna fyrir, staðfestar af endurskoðendum hans sem er alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki, er líklegt að það hafi staðið í miklum svikum? Er líklegt að stjórnendur bankans hafi staðið í miklum svikum og blekkingum? Er líklegt að skattalög í Þýskalandi eða reikningsskilalög í Þýskalandi hafi með einhverjum hætti heimilað slíkt?“ spurði Finnur.
Fréttastofa hefur ekki náð tali af Finni í dag.
Eignarhaldið aðeins til málamynda og tímabundið
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að Hauck & Aufhäuser hafi í raun verið leppur fyrir eignarhlut aflandsfélagsins Welling & Partners í Búnaðarbankanum.
„Eignarhald Hauck & Aufhäuser í Eglu hf., og þar með eignarhald á hlutum í Búnaðarbankanum en síðar Kaupþingi Búnaðarbanka hf. og KB banka hf. í gegnum það félag, var aðeins til málamynda og tímabundið. Aðrir aðilar fjármögnuðu í reynd, báru alla áhættu og áttu alla hagnaðarvon af þessum viðskiptum í nafni þýska bankans. Þýska bankanum var tryggt algert skaðleysi af þátttöku sinni í þeim, hann tók enga fjárhagslega áhættu með þeim og fjárhagslegir hagsmunir bankans af þeim takmörkuðust við umsamda þóknun sem kveðið var á um í baksamningunum,“ segir í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Í umfjöllun Fréttablaðsins í fyrra um málið voru rifjuð upp ummæli Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, sem var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Búnaðarbankans við einkavæðingu, þess efnis að hann hafi litið svo á að Hauck & Afhäuser hafi verið fulltrúi fyrir aðra aðila eftir að hafa fundað með fulltrúa þýska bankans.
„...maður hitti hann og maður upplifði það að hann hefði alveg eins getað hafa verið að kaupa ísbúð, hann vissi ekkert hvað hann var að kaupa. Það var algjörlega sénslaust að hann haf verið að leggja svo mikla peninga undir.“

Fréttablaðið ræddi við Guðmund Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóra Eglu, í fyrra vegna málsins sem sagðist ekki vita til þess að þýski bankinn hafi verið leppur fyrir aðra aðila.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að af gögnum verði ekki annað ráðið en að vitneskja um baksamninganna tengdum þessum kaupum hafi takmarkast við fámennan hóp einstaklinga sem ýmist stóðu að eða fylgdust með gerð samninganna í upphafi, önnuðust síðan framkvæmd þeirra eða nutu að lokum ávinnings á grundvelli þeirra.
Guðmundur Hjaltason, sem var einnig starfsmaður Samskipa hf, var einn þeirra sem var í þessum fámenna hópi.
Aðrir í þessu hópi voru Ralf Darpe og Michael Sautter, báðir starfsmenn bankans Société Générale. Bjarki Diego, sem starfaði sem lögfræðingur í Kaupþingi á þessum tíma, Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi aðstoðarforstjóri Kaupþings, Steingrímur Kárason, yfirmaður áhættustýringar Kaupþings, Kristín Pétursdóttir, forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings, Magnús Guðmundsson, annar framkvæmdastjóri Kaupthing Bank Luxembourg, Eggert J. Hilmarsson, lögfræðingur hjá sama banka, Karim Van den Ende, lögfræðingur hjá félaginu KV Associates og Ólafur Ólafsson.