Snorri Einarsson, skíðagöngumaður, hafnaði í 39. sæti á heimsmeistaramótinu í 30 kílómetra skiptigöngu í Lahti í Finnlandi en þetta var fyrsta skipti hans á mótinu fyrir hönd Íslands.
Líkt og fjallað var um á Vísi í vikunni hefur Snorri sem er 31 árs gamall keppt undir merkjum Noregs allan sinn skíðagönguferil en hann hefur búið í Noregi frá sex ára aldri.
Kom hann í mark á 1:14,10, tæplega fimm mínútum á eftir sigurvegaranum, Sergey Ustiugov frá Rússlandi sem kom í mark á 1:09,16. Snorra gekk betur framan af en þegar brautin var hálfnuð var hann á rúmlega 35 mínútum.
Fyrr í dag hafnaði Elsa Guðrún Jónsdóttir í 49. sæti í skiptigöngu á rúmlega 47. mínútum í 7,5 kílómetra göngu en hún kom í mark tæplega tíu mínútum á eftir sigurvegaranum í greininni, Marit Björgen frá Noregi.
