Nýji ökumaður Mercedes liðsins, Valtteri Bottas, segir að hann geti unnið liðsfélaga sinn, Lewis Hamilton í baráttu um heimsmeistarakeppni ökumanna.
Að mati Bottas sýndi Nico Rosberg, ríkjandi heimsmeistari og forveri Bottas hjá Mercedes öðrum ökumönnum að það væri hægt að hafa betur gegn Hamilton.
„Mér líður eins og það sé hægt að vinna Lewis, Nico sýndi að það er hægt,“ sagði Bottas í samtali við Sky Sports í Þýskalandi.
„Ég ber þó mikla virðingu fyrir því sem hann hefur gert á sínum ferli. Hann hefur náð svo mörgum ráspólum, unnið margar keppnir og er þrefaldur heimsmeistari.“
„Á meðan hef ég ekki unnið keppni. Ég hef mikið að sanna.“
Aðspurður hvort Bottas telji sig geta barist um heimsmeistaratitl ökumanna svaraði Finninn: „Ef bíllinn er sá besti. Ég er ekki hér til að verða annar eða aftar en það. Þetta er mikil áskorun að takast á við að aka í sama liði og Lewis.“
