Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, skýst beint í áttunda sætið á lista yfir kynþokkafyllstu þjóðarleiðtoga heims á vefsíðunni Hottest Head of State. Bjarni tók sem kunnugt er við lyklunum að forsætisráðuneytinu í dag og fer fyrir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.
Bjarni tekur þannig sætið fyrir ofan Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, en er sæti neðar en Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu. Rétt er að taka fram, til að fyrirbyggja allan misskilning, að listinn nær til þjóðarleiðtoga og leiðtoga ríkisstjórna, það er forsætisráðherra.
Allt er þetta til gamans gert á umræddri vefsíðu en samkvæmt listanum er Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, kynþokkafyllsti þjóðarleiðtoginn. Jigme Khesar Namgyel Wangchuck, konungur Bútan, er í öðru sæti og Enrique Peña Nieto, forseti Mexíkó, er í því þriðja.
Fráfarandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, er svo í fjórða sæti en það verður spennandi að sjá hvort næsti forseti, Donald Trump, komist á listann.
Bjarni stekkur beint í áttunda sætið á lista yfir kynþokkafyllstu þjóðarleiðtogana
